143. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2014.

störf þingsins.

[13:32]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég hef velt fyrir mér umgjörð kjarasamninga á Íslandi undanfarið. Þeir hefjast með því að aðilar vinnumarkaðarins setjast saman í karphúsinu og hringja í fjármálaráðherrann og spyrja hvað hann ætli að borga mikið í kjarasamningunum. Síðan er gengið eins nálægt buddu hans og mögulegt er þangað til lítið er eftir og þá ganga kjarasamningar í gegn. Þeir eru síðan lagðir fyrir félögin og það sem gerist er að þau fella kjarasamningana. Þá er hringt í fjármálaráðherrann aftur og honum kennt um að hafa ekki borgað nóg fyrir kjarasamningana.

Mér finnst þetta afskaplega einkennileg leið og þetta eru sömu aðilarnir, þeir sem vilja láta niðurgreiða fyrir sig launin, og hafna niðurgreiðslu til landbúnaðarins til dæmis og vilja ganga í Evrópusambandið. Mér finnst þetta afar einkennilegt. Ég hef líka velt því fyrir mér hvort þetta sé rétt gagnvart samkeppnislögum, að allur vinnumarkaðurinn komi saman, hinn frjálsi vinnumarkaður, og semji um ein laun fyrir allar starfsgreinar sem eru innan ASÍ til dæmis. Þar eru atvinnugreinar sem bera sig afar vel og þar eru líka atvinnugreinar sem standa í miklum erfiðleikum og eru lítið aflögufærar.

Hvernig stendur á því að við erum að samþykkja að grein sem er lítið aflögufær sé skylt að borga jafnmikið og grein sem er vel aflögufær og svo öfugt? Ég velti því fyrir mér hvort Samkeppniseftirlitið, sem reyndar sparkar bara í litlu kallana en ekki stóru strákana, hefði ekki áhuga á að skoða þessi mál og athuga hvort þeir sem eru á almennum vinnumarkaði standi ekki sjálfir undir þeim launasamningum sem þeir gera og beri þá ábyrgð á þeim og vísi ekki svo ábyrgðinni alltaf á aðra.