143. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2014.

störf þingsins.

[13:47]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er í hópi þeirra sem voru að vona að ófriðinn um Ríkisútvarpið væri að lægja. En þá stígur hæstv. forsætisráðherra fram og ætlar aftur að efna til átaka um stjórn Ríkisútvarpsins. Hann ætlar aftur að reyna að svíkja samkomulagið sem gert var um skipan stjórnarinnar hér síðasta sumar. Ég harma að stjórnarflokkarnir hafi ekki sjálfsvirðingu til að reyna að standa við gerða samninga og við þær yfirlýsingar sem gefnar hafa verið í ræðustól Alþingis af þeirra hálfu. Það getur ekki verið forgangsverkefni í stjórnmálum að hrekja fulltrúa Pírata úr stjórn Ríkisútvarpsins til að rýma fyrir enn einum framsóknarmanninum.

Við munum öll hvernig þetta var. Gert var samkomulag með stuðningi allra um að fjölga um tvo fulltrúa í stjórn Ríkisútvarpsins síðasta sumar. Það var gert á grundvelli yfirlýsingar hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur, formanns allsherjar- og menntamálanefndar, um að samkomulag væri um að stjórnarflokkarnir fengju annan þeirra fulltrúa og stjórnarandstaðan hinn. Það var ekki gert til að Samfylkingin fengi einn í viðbót, nei, heldur til að Píratar ættu líka fulltrúa þar, sá þingflokkur sem annars hefði engan fulltrúa átt í stjórn þessarar kjarnastofnunar lýðræðis á Íslandi. Það var samkomulag sem við þingflokksformenn töldum okkur hafa gert við þingflokksformenn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks. Það var ömurlegt að fylgjast með hæstv. forsætisráðherra þegar hann sendi hv. þm. Sigrúnu Magnúsdóttur hér upp til að biðjast afsökunar á því að slíkt samkomulag héldi ekki enda stóðu stjórnarliðar ekki á bak við þau svik heldur gekk einn þeirra í lið með stjórnarandstöðunni og tryggði það að samkomulagið hélt, að yfirlýsing formanns allsherjar- og menntamálanefndar í ræðustól Alþingis hélt og stjórnarandstaðan fékk annan fulltrúann og Píratar eru í stjórn Ríkisútvarpsins. (Forseti hringir.) Ég hélt að þessi sneypuför hefði verið svo ömurleg fyrir okkur öll að menn mundu síðan láta kyrrt liggja. En nú á aftur (Forseti hringir.) að taka þetta upp, aftur að gera hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur að ómerkingi, (Forseti hringir.) aftur að svíkja samninginn sem gerður var. Hvað (Forseti hringir.) … ráðherra?