143. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2014.

störf þingsins.

[13:49]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil vekja athygli hv. þingmanna á svari hæstv. fjármálaráðherra við fyrirspurn minni um tekjur ríkissjóðs af hverjum erlendum ferðamanni. Svarið er á þskj. 506. Þar kemur fram að erlendum ferðamönnum hér á landi hafi fjölgað um 141% á milli áranna 2002 og 2012. Á tíu ára tímabili hefur erlendum ferðamönnum fjölgað gríðarlega en á sama tíma hafa skatttekjur á hvern ferðamann lækkað um rúm 46%. Við hljótum því að spyrja okkur hvað valdi og hvort okkur finnist þessi þróun góð og æskileg.

Þegar spurt er um helstu skýringar á tekjumun á milli ára svarar hæstv. ráðherra því til að margir samverkandi þættir liggi að baki og erfitt sé að meta hvern fyrir sig en líkur séu á að breytingar hafi orðið á samsetningu hópsins. Ýmsar kannanir virðist benda til þess að hver ferðamaður eyði lægri fjárhæðum hér á landi en fyrir tíu árum. Gistimöguleikum hafi til dæmis fjölgað verulega, sérstaklega í ódýrari kantinum, sem væntanlega eigi sinn þátt í að skapa grundvöll fyrir fjölguninni.

Hæstv. iðnaðarráðherra gaf þær upplýsingar í gær, í svari við fyrirspurn frá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, að verð á gistingu hafi hækkað langt umfram verðbólgu síðustu árin. Þó fjölgaði erlendum ferðamönnum milli áranna 2010 og 2011 um tæp 16% og á milli áranna 2011 og 2012 um 19%.

Hæstv. fjármálaráðherra segir einnig í svari sínu að lækkun virðisaukaskatts 1. mars 2007, úr 14% í 7% á matvöru, veitinga- og gistiþjónustu, skýri væntanlega einnig hluta af þessari þróun en það er einmitt á milli áranna 2006 og 2007 sem stökkið er stærst og lækkunin er um 20%.

Ég hvet hv. þingmenn til að kynna sér þingskjalið (Forseti hringir.) og velta því fyrir sér um leið hvort ekki sé skynsamlegra að hækka virðisaukaskatt á gistingu en að flækja skattkerfið enn meira með nýrri gjaldtöku (Forseti hringir.) eins og gert er ráð fyrir með náttúrupassa.