143. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2014.

störf þingsins.

[13:52]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég kem hér upp í þeim jákvæða tilgangi að benda þingheimi á að lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins hefur tekist að hafa hendur í hári níu hættulegra glæpamanna. Í Héraðsdómi Reykjaness í morgun voru lögfestar kærur lögreglunnar þar sem hún fer fram á að forða borgurum landsins frá athæfi glæpamannanna.

Glæpamennirnir eru níu og tími minn er skammur en rétt er að kynna til sögunnar til dæmis Tinnu Þorvaldsdóttur Önnudóttur, 29 ára leikkonu og söngnema, sem er einn af þessum níu hættulegu glæpamönnum, Kristinn Guðmundsson, 61 árs sjávarlíffræðing hjá Hafrannsóknastofnun, sem er annar af þeim hættulegu glæpamönnum, og Sveinbjörgu Vilhjálmsdóttur, 70 ára píanóleikara og fyrrverandi tónlistarskólastjóra á Álftanesi, sem er þriðji glæpamaðurinn. Ég gæti nefnt sex nöfn í viðbót. Þetta fólk er kært. Saksóknin er lögreglustjóra, þ.e. lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, en ríkissaksóknari hefur ekki lagt fram kæru á hendur fólkinu fyrir þátttöku í mótmælum, fyrir að tjá skoðanir sínar og hafi eitthvert afbrot verið framið mundi það í öðrum löndum hjá siðuðu fólki vera kallað borgaraleg óhlýðni. Sú borgaralega óhlýðni sem við metum þannig í útlöndum að forseti Íslands leggur blómsveig að leiði Gandhis og hér í háskólanum er haldið málþing um Nelson Mandela.

Í gær var spurt að því og reyndar staðhæft um tiltekið leiðindamál í innanríkisráðuneytinu þar sem lekið var persónuupplýsingum að þar væri á ferð pólitík í að gagnrýna það. Ég spyr: Hvaða pólitík er hér á ferðinni? Er verið að undirbúa, er verið að vara við, er verið að segja mótmælendum framtíðarinnar til dæmis í náttúruverndarmálum næstu árin, þegar verið er að kippa (Forseti hringir.) náttúruverndarlögunum úr gildi, eyðileggja rammaáætlun, að hafa sig hæga? Er það sú pólitík sem kærur lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins á hendur þessum níu hættulegu glæpamönnum lýsir?