143. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2014.

störf þingsins.

[13:56]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég vil nota þennan stað til að furða mig aftur á harðneskjulegri framgöngu lögreglunnar gagnvart friðsömum mótmælum borgara landsins við vegalagningu í Gálgahrauni. Fyrir jól var þar fólk handtekið og nú hefur það verið ákært fyrir að mótmæla friðsamlega hér úti í Álftaneshrauni. Ég vil taka undir með hv. þm. Merði Árnasyni og spyrja: Er verið að segja við fólkið: Nú skuluð þið hafa ykkur hæg? Ef svo er þá er það mjög alvarlegt.

Ég vil í annan stað vekja athygli á mjög merkilegu viðtali sem var við Guðrúnu Johnsen í sjónvarpinu í gærkvöldi og mun verða endurtekið þar kl. 18:30 í dag, eftir því sem mér er sagt. Þetta er afskaplega fróðlegt viðtal við konu sem þekkir fjármálalífið í dag og þekkti það á árunum 2002–2008 eða 2009. Hún reyndi að benda Íslendingum á hvað væri að gerast og menn skelltu skollaeyrum við því sem hún sagði. Þetta er mjög fróðlegt áhorf og sérstaklega hollt þeim sem eru að reyna að breyta sögunni og segja að íslenskur mannlegur máttur hefði ekki getað komið í veg fyrir það sem hér gerðist árið 2008.

Að lokum. Ég ítreka að ég hef enga löngun til að koma höggi á innanríkisráðherrann, enga. (Forseti hringir.) Ég hef hins vegar fulla löngun til þess að innanríkisráðherrann og stjórnkerfið (Forseti hringir.) allt þjóni borgurunum í landinu af bestu getu.