143. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2014.

störf þingsins.

[13:58]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er áhugavert að hlusta á hv. þm. Steingrím J. Sigfússon svara spurningum sem fyrir hann voru lagðar og þó svo að hv. þingmaður sé nú ágætisorator og geti tekið stórt upp í sig þá er það alveg ljóst að það þarf að skoða þessi mál betur. Ég vek athygli á því að hv. þingmaður, þá í stól hæstv. fjármálaráðherra, hafði líka uppi stór orð þegar hann var spurður út í Icesave á sínum tíma, hann svaraði því til að það væri svo langt í það að gerður yrði einhver samningur í því efni, sem var síðan gerður rétt rúmlega sólarhring síðar. Lítið gerði hann úr þeirri gagnrýni sem nú hefur komið í ljós að var réttmæt, að SpKef og Byr þurftu ekki einhverra hluta vegna að uppfylla eiginfjárhlutföll í langan tíma og endaði sá kostnaður sem af því hlaust á skattgreiðendur. Erfitt er að átta sig á því af hverju í ósköpunum farið var út í það að stofna Dróma og gefa út skuldabréfið sem Arion banki og kröfuhafar, eigendur þess, hafa hagnast gríðarlega á.

Ef hv. þingmaður hefur sannfæringu fyrir því sem hann sagði þá hlýtur hann að fagna því að þessi mál verði skoðuð í stað þess að vera ekki með stóryrtar yfirlýsingar um það fólk sem er ekki hér til að verja sig og stóryrtar yfirlýsingar um hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur. Ég lít svo á að nú reyni á hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að skoða þau mál sem hafa svo sannarlega verið í umræðu þótt ekki hafi þau farið hátt á síðasta kjörtímabili. Þau eru komin upp aftur núna (Forseti hringir.) og ýmis gögn eru komin fram sem mjög mikilvægt er að fara yfir.