143. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2014.

störf þingsins.

[14:01]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Þar sem ég heyri að jákvæðni svífur hér yfir vötnum ætla ég að gefnu tilefni að íhuga að stofna félag stjórnmálamanna á Alþingi með gagnrýna hugsun; og kemur í ljós hve margir vilja vera með mér í þeim félagsskap.

Ég ætla að vera á jákvæðu nótunum. Í morgun var fundur í atvinnuveganefnd þar sem við hittum ýmsa aðila í sjávarútvegi og á Hafrannsóknastofnun. Sá fundur gefur fullt tilefni til að vera bjartsýnn fyrir hönd útgerðar í landinu og sjávarútvegs. Fram kom að gífurlegur uppgangur hefur verið í greininni eftir hrun og það er eitthvað annað en var áratugina fyrir hrun þegar hér var mikil skuldasöfnun og menn gátu ekki endurnýjað skipaflotann eins og hann ber merki um.

Það er mikill uppgangur í greininni og þó að menn barmi sér vissulega eins og menn hafa gert í gegnum tíðina varðandi nokkra þætti þá er greinin heilt yfir að gera það gott og allar aðstæður, í umhverfinu, á mörkuðum og í hafinu, eru þannig að við getum verið full bjartsýni.

Við eigum að horfa til ýmissa nýjunga í greininni, bæði varðandi ýmsar rannsóknir og vöruþróun í heilsu- og lyfjatengdum vörum, snyrtivörum og öðru því um líku; miklir möguleikar eru hjá greininni að auka tekjur sínar og auka fjölbreytni í vinnu. En það kom líka fram að sérstaða í útflutningi er fyrst og fremst hjá okkur á erlendum mörkuðum af afurðum úr smábátageiranum og í línufiski. Þar erum við með mikla sérstöðu sem sölu- og markaðsfulltrúar sem hafa verið að markaðssetja greinina erlendis horfa til, að það séu okkar tækifæri í sjávarútvegi að selja dýra vöru með upprunavottun. Þar eigum við að reyna að efla greinina mjög.