143. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2014.

ummæli þingmanns í umræðum um störf þingsins.

[14:15]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Var nú ekki ástæða til þess að dingla að minnsta kosti bjöllu yfir síðustu orðum hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar? (Gripið fram í.)

Það er merkilegt að hlusta á þessa umræðu. Ég kem hér upp vegna þess að hv. þm. Bjarkey Gunnarsdóttir hnýtir í hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson fyrir að hafa vísað til orða hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. Hér eru málin komin í hring og þá ætla ég að spyrja hvort ekki sé mesti skaðinn í dag í þessari umræðu að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hnýtti í nafntogaðan aðila sem er ekki í þinginu sem skrifaði bréf til þingsins og getur ekki varið sig í þessum ræðustól? (Gripið fram í: Þetta hefur oft verið …) Það eru skammirnar sem þetta mál snýst um, virðulegi forseti. Ég er vön því að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hnýti í mig og kalli mig öllum illum nöfnum, en þarna gerðist hinn reynslumikli hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sekur um (Forseti hringir.) vinnubrögð sem hefði átt að stoppa og gera athugasemdir við, virðulegi forseti. (Gripið fram í: Þetta er kannski ekkert …)