143. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2014.

fjárhagsaðstoð vegna gjaldþrotaskipta.

233. mál
[14:32]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ráðherrann er auðvitað bundinn af lögunum og þeim ákvæðum sem við setjum hér. Málum er þannig háttað að nefndin taldi rétt, og var sammála því mati ráðuneytisins, að umboðsmaður skuldara, sem hefur farið með þessi verkefni, væri best til þess fallinn að meta þessar umsóknir. Það verður einhver að gera það og þetta var niðurstaða okkar í nefndinni. Ef menn vilja síðan gera einhverjar breytingar á því hvernig lagaumhverfi umboðsmanns skuldara er verðum við að taka það til sjálfstæðrar skoðunar í þinginu. Menn geta þá lagt fram einhvers konar þingmál þar að lútandi ef það er það sem menn vilja gera.

Ástæðan fyrir því, eins og ég sagði áðan í ræðu minni, að við gerum þessar breytingartillögur er sú að fram kom í athugasemdum við frumvarpið að ekki þætti eðlilegt að ekki væru gerðar sambærilegar kröfur um háttsemi skuldara og gert er í lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga. Þess vegna koma þessar breytingartillögur til.