143. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2014.

almenn hegningarlög.

109. mál
[15:00]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að ég verði að taka undir með hv. þingmanni að það er gríðarlega mikilvægt að ræða tjáningarfrelsið. En hafandi hlustað á hann hér og áður raunar þegar við höfum rætt þetta langar mig aðeins að heyra frá hv. þingmanni hvort honum finnist það of þröngt í dag, hvort tjáningarfrelsi á Íslandi sé of þröngur stakkur skorinn.

Í öðru lagi varðandi sektir þá finnst mér að svolítill misskilningur sé í gangi vegna þess að í ákvæðunum er þetta sektir eða fangelsisdómur. Ég hef alltaf skilið það þannig að ef menn greiði ekki sínar sektir sé hægt að fylgja því eftir með fangelsi til að borga sektina. Þannig sé málið hugsað en ekki að fangelsisdómur sé fyrsta refsing sem notuð er. Þá langar mig að spyrja, af því að ég var ekki á öllum þeim fundum þar sem fjallað var um þetta mál: Hefur fangelsisvist einhvern tíma verið beitt varðandi tjáningarfrelsi?

Í þriðja lagi langar mig að vekja máls á því að oft er eitt alvarlegasta form eineltis háð eða grín. Og það er afsökunin þegar einhver er að kvelja einhvern að gerandinn segir: Ég var bara að leika mér, þetta var bara í gríni. Þegar krakkarnir voru dregnir út í frímínútum, snjó var troðið ofan í buxurnar eða þeir hæddir með einhverjum orðum endaði það alltaf á því að sagt var þegar maður lenti í umræðum um slíkt: Ég var bara að grínast.

Hvar eru þau mörk? Hvernig getur maður sett þau? Og hvernig ætlar maður að gefa skilaboð um að slíkt sé engin afsökun þegar verið er að verja rétt einstaklinga að maður geti hreinlega sagt: Ja, þetta var í gríni, eða ég var bara að tjá skoðanir mínar. Þetta er fín lína og ég virði mjög vel og þakka þá umræðu sem við höfum átt í nefndinni einmitt um þessi atriði. Ég held að við eigum að halda henni áfram. Ágreiningurinn hér er eingöngu um það hvort gera eigi þetta núna eða taka það sérstaklega (Forseti hringir.) upp sem mál til sérstakrar skoðunar.