143. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2014.

almenn hegningarlög.

109. mál
[15:05]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að þessi stuttu andsvör veki athygli á því að halda þurfi áfram að ræða mörkin vegna þess að upplifunin á hvar þau eru og hversu hamlandi þau eru eru augljóslega mismunandi. Það er þannig víða. Við tókum dæmi af því í nefndinni að sums staðar á stórum svæðum erlendis og raunar í háskólum til dæmis í Bretlandi eru mjög klárar reglur um það hvað maður má nota af hugtökum varðandi kynvitund, rasisma eða annað slíkt. Það varðar þá refsibrotum, menn geta fallið á ritgerðum eða öðru slíku ef þessi ákveðnu hugtök eru notuð. Þannig ver samfélagið sig fyrir ekki endilega opinni umræðu sem á sér stað í faglegu umhverfi heldur sleggjudómum sem menn nota til að niðurlægja fólk.

Sama gildir á íþróttavöllum í Bretlandi. Víðast hvar er það þannig að ef menn eru með frammíköll, eins og þar hefur komið fram, eru menn útilokaðir frá leikjum í langan tíma, jafnvel árum saman. Það eru harðar refsingar í sjálfu sér fyrir þá sem þar vilja vera en það hefur líka væntanlega einhvern fælingarmátt. Þess vegna langar mig að spyrja hv. þingmann í seinni lotunni um það að fangelsisvist hafi aldrei verið beitt. Telja menn að þöggun sé fólgin í því að þetta ákvæði sé svona, að ef menn sinni ekki og borgi ekki sektir geti þeir átt á hættu að lenda í fangelsi til að borga sektina? Að það verði sem sagt til þess að menn þori ekki að tjá sig í íslensku samfélagi? Fyrir mér eru það frekar nýjar upplýsingar.

Ágreiningurinn í nefndinni milli minni hlutans, þ.e. hv. þingmanns, og annarra, er fyrst og fremst að við töldum ekki að í þessu eina máli ætti að taka inn þetta ákvæði af því að við erum að fjalla um kynvitund, við erum að bæta inn skilgreiningum á hópum sem verða fyrir aðkasti í íslensku samfélagi, og ekki eigi að taka þetta mál þar heldur eigi að taka það í stærra samhengi. Það hefur nefndin boðað að gera og hefur óskað eftir því að sú umræða eigi sér stað. (Forseti hringir.) Við stöndum við það þó að við fellum þessar tillögur frá minni hlutanum í þetta skiptið.