143. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2014.

almenn hegningarlög.

109. mál
[15:09]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér breytingu á almennum hegningarlögum, með síðari breytingum. Málið snýst í raun og veru um tiltölulega einfalda breytingu við fyrstu sýn. Nefndin hefur tekið þá breytingu til töluverðrar umfjöllunar en hún er að bæta inn í tvær greinar laganna, þ.e. 180. gr. og síðan 233. gr., skilgreiningunni kynvitund til viðbótar við trúarbrögð og kynhneigð.

Nefndin fjallaði um breytingar á hegningarlögunum fyrst og fremst út frá þessari viðbót, að ákveðinnar réttarbótar væri þörf í ljósi þess að kynvitund er orðið hugtak sem þarf að eiga sér sæti á grundvelli mannréttinda í löggjöf af þessu tagi. Það var nálgunin og það er ástæðan fyrir því að mælt er fyrir málinu til að byrja með, sem er í þessu tilfelli stjórnarfrumvarp. Það verður ekki til í tómarúmi heldur í alþjóðlegu mannréttindaumhverfi og á sér rætur og samsvörun þar.

Hins vegar vil ég segja hér vegna þeirrar umræðu sem hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson hefur vakið máls á og þeim breytingartillögum sem hann hefur mælt fyrir að ég vil fagna sérstaklega tóninum í þeirri umræðu. Hún er gríðarlega mikilvæg, þ.e. umræðan um tjáningarfrelsið. Ég hef hins vegar verið þeirrar skoðunar að sú breyting sem hér er uppi á almennum hegningarlögum og varðar upptalningu á þeim hópum sem undir eru í tilgreindum lagagreinum sé ekki tilefni til að endurskoða refsiramma í hegningarlögum.

Það má segja að það hafi verið mín afstaða í gegnum alla þá umræðu sem hefur verið í nefndinni og hefur verið afar góð, eins og kom fram í ágætum orðaskiptum hv. þm. Guðbjarts Hannessonar og hv. þm. Helga Hrafns Gunnarssonar. Við þurfum í raun og veru að skoða báðar hliðar þessa máls, þ.e. annars vegar tjáningarfrelsishliðina sem píratar hafa látið sig mikið varða og er mjög mikilvæg og þessi fína lína sem kom fram í andsvörum milli hv. þingmanna, en hins vegar og ekki síður þær meginreglur yfirleitt sem undir liggja þegar refsingar eru annars vegar. Það er líka umræða sem þarf að taka upp, þ.e. markmið með sektum, samfélagsþjónustu, refsingum o.s.frv.

Umræðan sem breytingartillaga hv. þingmanns hvílir á er svona breið. Hún er ekki bara breytingartillaga sem við skutlum inn, klárum og afgreiðum í tengslum við það tilefni sem hér er uppi. Því vil ég segja að ég tel fullt tilefni til þess að fram komi sérstakt þingmál sem stafar af þessari umræðu hér, sérstakt þingmál þar sem fjallað er um þetta með víðtækari hætti. Hugsanlega má gera það með þingsályktunartillögu og ítarlegri greinargerð þar sem yrði farið þess á leit að málið yrði skoðað ítarlega, borið saman við löggjöf annars staðar og sérstaklega þessa tvo brennipunkta sem báðir eru mjög mikilvægir út frá mannréttindasjónarmiðum ekki síður en því tilefni sem hér er uppi, þ.e. annars vegar það sem varðar tjáningarfrelsi og hins vegar að því er varðar meginreglur og meginhugmyndir sem liggja til grundvallar refsingum í þroskuðu og upplýstu samfélagi.

Virðulegi forseti. Ég vildi hafa sagt þetta hér undir þessum lið þannig að það lægi fyrir að væntanlega munum við þingflokkur Vinstri grænna ekki styðja breytingartillögur hv. minni hluta en jafnframt og þrátt fyrir það teljum við að þau sjónarmið sem í breytingartillögunum endurspeglast eigi fullt erindi í umræðu á Alþingi. Ég vil og vænti þess að hv. þingflokkur pírata hafi frumkvæði að því að koma slíku þingmáli á laggirnar.