143. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2014.

rannsóknir og saksókn í efnahagsbrotamálum.

283. mál
[15:15]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka forseta fyrir að taka þetta mál hér á dagskrá og heimila umræðu um þessi mikilvægu mál. Tilefni umræðunnar er öllum ljóst, það er skýrsla nefndar um skipulag og tilhögun rannsókna og saksóknar í efnahagsbrotum sem skilað var til innanríkisráðherra fyrir áramót. Tilefnið er þó ekki síður það að við sem hér sitjum leitum tækifæra til að færa okkur á annan og nýjan stað þegar kemur að umræðu og meðhöndlun efnahagsbrota. Eins og fram kemur í umræddri skýrslu stendur heildarskipulag lögreglu og ákæruvalds á vissum tímamótum, tímamótum sem við verðum að fjalla um og taka skýra afstöðu til. Því er eðlilegt og mikilvægt að hér fari fram umræða um þróun þeirra mála.

Það hefur alltaf legið fyrir að til embættis sérstaks saksóknara var stofnað til að bregðast við hinum sérstöku og óvenjulegu aðstæðum sem sköpuðust á fjármálamarkaði í kjölfar hruns íslensku bankanna haustið 2008. Um það hefur ríkt pólitísk sátt. Ég held að þingheimur allur hafi gert sér grein fyrir því frá upphafi að hér væri að sjálfsögðu um tímabundið fyrirkomulag að ræða. En nú eru liðin rúm fimm ár frá hruninu. Okkur er ljóst að enn eru mörg mál til rannsóknar og þau munu að sjálfsögðu fá sína afgreiðslu í réttarkerfinu og meðhöndlun eins og eðlilegt er.

En okkur er á sama tíma ljóst að til frambúðar gerist ekki þörf á svo viðamiklu og í raun krísutengdu embætti sem embætti sérstaks saksóknara er. Það breytir því þó ekki að við sem hér sitjum viljum að rannsókn og saksókn efnahagsbrota sé í traustum og góðum farvegi eins og meðferð annarra afbrota í landinu. Þess vegna tel ég rétt að leggja fyrrnefnda skýrslu fram í dag og um leið að hvetja þingheim allan til að taka afstöðu til hennar og taka afstöðu til framtíðarskipan þessar mála og ræða þau.

Ef ég vík að skýrslunni sjálfri og því hvers vegna hún er fram borin og fram komin er sem fyrr segir um að ræða skýrslu nefndar sem hæstv. þáverandi innanríkisráðherra, Ögmundur Jónasson, skipaði í janúar 2012 í samræmi við bráðabirgðaákvæði í lögum um embætti sérstaks saksóknara. Þar er kveðið á um að innanríkisráðherra skuli skipa nefnd sérfróðra manna til þess að endurskoða skipulag og tilhögun rannsókna og saksóknar í efnahagsbrotamálum og gera tillögur að heildarskipulagi slíkra rannsókna innan einnar stofnunar í þeim tilgangi að gera þær skilvirkari og markvissari og tryggja sem besta nýtingu fjármuna sem ætlaðar eru í þessu skyni. Nefndinni bar í störfum sínum að hafa hliðsjón af skipan efnahagsbrotarannsókna annars staðar á Norðurlöndum.

Til upplýsingar, sem kemur einnig fram í skýrslunni, þá skipuðu nefndina þau Sigurður Tómas Magnússon, prófessor við Háskólann í Reykjavík, sem jafnframt var formaður hennar, Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri og Þóra M. Hjaltested, skrifstofustjóri í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

Í júní 2012 tók Valgerður Rún Benediktsdóttir, skrifstofustjóri í sama ráðuneyti, sæti Þóru í nefndinni. Með nefndinni starfaði Gunnlaugur Geirsson, lögfræðingur í innanríkisráðuneytinu.

Ég vil af þessu tilefni þakka öllum þessum einstaklingum fyrir vinnu sína við skýrsluna.

Virðulegur forseti. Sem fyrr segir var frá upphafi gert ráð fyrir því að embætti sérstaks saksóknara mundi starfa tímabundið. Embættið var þannig viðbót við stofnanir ákæruvaldsins af sérstöku tilefni og hróflaði því ekki við verkaskiptingu milli ákæruvalds og lögreglu annars vegar og annarra eftirlitsstofnana hins vegar, svo sem Fjármálaeftirlits og skattrannsóknarstjóra ríkisins. Embættinu var ætlað að annast rannsókn og saksókn vegna þeirra mála sem tengdust starfsemi fjármálafyrirtækja og var embættinu þegar í upphafi markaður tímarammi líkt og þingheimur þekkir. Eftir 1. janúar 2011 var ráðherra því heimilt, að fengnu áliti ríkissaksóknara, að leggja embættið niður og mundu verkefnin færast til lögreglu eða ákæranda fyrir almennum reglum lögreglulaga og sakamálalaga. Með breytingum á lögum um embætti sérstaks saksóknara á árinu 2011 var hins vegar tekin ákvörðun að færa þetta tímamark aftur til 1. janúar 2013. Jafnframt var ákveðið, sökum þeirrar samsvörunar sem með þeim málum sem rannsökuð eru hjá embætti sérstaks saksóknara og hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra, að sameina á einum stað rannsókn og saksókn efnahagsbrota hjá embætti sérstaks saksóknara. Þá var framangreint bráðabirgðaákvæði sett til þess að nota tímann til að huga að framtíðarskipan rannsókna á efnahagsbrotum.

Ég vil einnig árétta það, og það kemur fram í frumvarpi til fjárlaga sem lagt var fram og í núverandi lögum sem samþykkt voru á Alþingi fyrir áramót, að gert var ráð fyrir minnkandi fjárheimildum til embættis sérstaks saksóknara, eins og þingheimur þekkir. Var það er gert í samræmi við upphaflega áætlun um starfsemi þess þar sem reiknað var með að fjárheimildir mundu lækka eftir því sem rannsókn mála í tengslum við bankahrunið lyki.

Innanríkisráðuneytið mun á þessu ári vinna náið með embætti sérstaks saksóknara vegna fjárhagslegs uppgjörs embættisins með það að markmiði að vel takist að ljúka þeim rannsóknum og verkefnum sem sérstakur saksóknari hefur með höndum, en einnig til að tryggja að sú yfirfærsla sem þarf að eiga sér stað vegna efnahagsbrotanna gangi vel fyrir sig, því að líkt og kemur fram í þeirri skýrslu sem hér er til umræðu og sem komið hefur fram í samþykktum Alþingis áður, er miðað við að embætti sérstaks saksóknara verði lagt af í þeirri mynd sem það nú er í lok þessa árs og að við taki nýtt fyrirkomulag 1. janúar 2015. Það er það sem umrædd skýrsla miðar við.

Virðulegur forseti. Það má þannig segja að samkvæmt breyttum lögum hafi sérstakur saksóknari haft það almenna hlutverk að annast rannsókn og saksókn efnahagsbrota hér á landi frá bankahruni. Ekki hefur það einungis einskorðast við þá hluti, heldur einnig aðra hluti er hafa komið inn á það borð og tengjast efnahagsbrotum almennt.

Ég vil gera sérstaklega að umræðuefni innihald þeirrar skýrslu sem hér er til umræðu. Þar eru gerðar tillögur um nýja skipan efnahagsbrota til framtíðar, bæði hvað varðar lagalega umgjörð og einnig framkvæmdina. Í skýrslunni er að finna tillögur bæði hvað varðar stofnanaskipan og úrræði til að auka skilvirkni í rannsókn efnahagsbrotamála. Þá er einnig að finna yfirlit og tillögur um aðra mikilvæga þætti sem lúta að réttaröryggi, sporna við tvíverknaði í kerfinu og er mikil umræða í skýrslunni um hvernig hægt sé að endurheimta ólögmætan ávinning af brotum, svo nokkur atriði séu upp talin.

Nefndinni var fyrst og síðast ætlað að gera tillögur að heildarskipulagi efnahagsbrotarannsókna innan einnar stofnunar. Það er mikilvægt að halda því til haga að það var í erindisbréfi nefndarinnar. Nefndin gerir í skýrslu sinni tillögu að nýrri stofnanaskipan þannig að komið verði á fót nýrri stofnun rannsókna og ákæru á sviði efnahagsbrota með svipuðum hætti og gert hefur verið á Norðurlöndunum. Það er ágætlega yfir það farið í skýrslunni hvernig fyrirkomulag er í nágrannalöndunum. Þá er einnig lagt til að peningaþvættisskrifstofa sem nú er hjá embætti ríkislögreglustjóra verði færð til hinnar nýju stofnunar og að sett verði upp sérstök deild er sinni endurheimtu ólögmæts ávinnings af brotum. Umræðan í skýrslunni um ólögmætan ávinning af brotum er til komin vegna beiðni sem kom á seinni stigum skýrslugerðarinnar frá þáverandi hæstv. innanríkisráðherra um að það yrði skoðað sérstaklega.

Hvað umfang verkefna hinnar nýju stofnunar varðar telur nefndin tvær leiðir koma til greina, og það er það sem skiptir mestu máli í þessari umræðu. Önnur leiðin byggir á grunni embættis sérstaks saksóknara og að hin nýja stofnun fari að lágmarki með rannsókn efnahagsbrotamála og ákæruvald í skattalaga- og efnahagsbrotamálum. Hin leiðin, sem einnig er farið nákvæmlega yfir í skýrslunni, er sú að hin nýja rannsókna- og ákærustofnun taki við verkefnum embættis sérstaks saksóknara en einnig embættum skattrannsóknarstjóra og eftir atvikum verkefnum er varða málshöfðanir ríkissaksóknara. Þannig er síðari tillagan umfangsmeiri, hún gerir ráð fyrir frekari sameiningu stofnana en sú fyrri. Báðar miða að því að hafa eina stofnun, en hin síðari tekur mið af þeirri hagkvæmni sem gæti falist í því að setja málefni fleiri stofnana undir sama hatt.

Án tillits til þess hvaða leið yrði farin var nefndin sammála um að gera þurfi breytingar á meðferð skattalagabrota og að frekari samvinna og samráð skattrannsóknarstjóra og efnahagsbrotastofnunar verði lögbundin þannig að skattrannsóknarstjóri fullrannsaki skattalagabrot en sendi þau til ákærumeðferðar til efnahagsbrotastofnunar.

Virðulegur forseti. Í lokin langar mig aðeins að fara yfir það stuttlega hvers vegna ég taldi mikilvægt að koma með skýrsluna í þennan sal. Mér finnst það mikilvægt vegna þess að ég held að nauðsynlegt sé fyrir framhald þessa málaflokks að við náum sem bestri pólitískri sátt um hvernig við getum haldið farsællega á þessum stóru málum til framtíðar. Ég tel eðlilegt að þingið, sérstaklega allsherjar- og menntamálanefnd, fari yfir umfang, kostnað og fleira sem snýr að rannsókn og saksókn efnahagsbrota. En ég tel líka mikilvægt og árétta það að þingmenn allra flokka fái tækifæri til að eiga að komu að framtíðarskipan þessara mála og hafa áhrif á það sem ég nefndi áðan sem eru þær krossgötur sem við stöndum á hvað þennan málaflokk varðar.

Verkefnið nú er að setja málið í þann farveg að við getum unnið saman að því og ég vonast til þess að þingmenn allra flokka láti til sín taka við umræðu málsins og ekki síður við framhald málsins þegar kemur að framkvæmd.

Virðulegi forseti. Ég fagna því að málið hafi verið tekið á dagskrá í þinginu og vona að við eigum góðar umræður um það í dag, en fyrst og síðast að við náum niðurstöðu í þau mikilvægu mál sem hér eru til meðferðar. Ég vona að okkur auðnist að koma málinu þannig fyrir til framtíðar að við getum sagt og tryggt að þessum málum sé eins vel fyrir komið og mögulegt er.