143. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2014.

rannsóknir og saksókn í efnahagsbrotamálum.

283. mál
[15:37]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér fjöllum við um skýrslu innanríkisráðherra um skipulag og tilhögun rannsókna og saksóknara í efnahagsbrotamálum. Ég verð að viðurkenna að ég hafði lítið kynnt mér fyrirkomulag þeirra mála áður en ég varð þingmaður. Eitt af því sem mér varð ljóst strax á fyrstu vikunum í nýju starfi er að enn er mikið óunnið í mótun framtíðarumgjarðar í kringum fjármálakerfið, bæði varðandi reglur um starfshætti, eftirlit og meðferð brota. Þetta á bæði við hjá okkur Íslendingum og í nágrannalöndunum. Satt best að segja hef ég leitt hugann að því hvort við erum of upptekin af þessum málum á kostnað ýmissa annarra mála. Hins vegar hef ég velt fyrir mér hættunni við að ganga of langt í reglum og eftirliti eftir bitra reynslu af óljósu og óskilvirku regluverki. Það er vandratað meðalhófið. En að þeim orðum sögðum er ég ekki að draga úr mikilvægi vandaðrar vinnu á þessu sviði heldur þvert á móti.

Skýrslan sem hér liggur fyrir er mikilvæg fyrir þingið því að nú er komið að því að endurmeta hlutverk embættis sérstaks saksóknara sem ekki var ætlunin að yrði varanleg stofnun. Þingið þarf að svara spurningunni um hvernig haga á rannsókn og saksókn í efnahagsbrotamálum frá og með næstu áramótum. Við getum örugglega öll verið sammála um að við viljum einfalt og skilvirkt kerfi þar sem fjármunir sem lagðir eru til verksins nýtast sem best. Þá nýtist skýrslan vel til að skoða mögulegar leiðir að markmiðinu og þær eigum við eftir að ræða betur. Það sem mig langar að velta fyrir mér er það grundvallarmarkmið að koma í veg fyrir að glæpir borgi sig.

Eitt af því sem bent er á að hafi mikil áhrif í því sambandi er endurheimt ólögmæts ávinnings af brotum. Því er lagt til að fastur liður í meðferð allra efnahagsbrota verði sérstakar aðgerðir til endurheimtar ólögmæts ávinnings af brotunum. Byggð verði upp sérfræðiþekking og reynsla á því sviði með því að koma á fót sérfróðum vinnuhópi eða teymi sem aðstoði þá sem vinna að rannsóknum efnahagsbrota og hvers kyns hagnaðarbrota og skipulagðri glæpastarfsemi. Markmið þessa starfs yrði að tryggja endurheimt ólögmæts ávinnings innan lands sem utan.

Ég tel þetta lykilatriði því að þegar upp er staðið eru það ekki refsingar sem skipta mestu máli heldur viðhorf samfélagsins, annars vegar siðferðilegt viðhorf um hvað er samþykkt hegðun og hvað við ætlum að gengið sé langt á hinum ýmsu sviðum og hins vegar viðhorf til þess hvort þeir sem fremji brot þurfi að borga samfélaginu til baka með einhverjum hætti. Almenningsálitið hefur verið að þeir sem hagnist á efnahagsbrotum sleppi að jafnaði við að greiða samfélaginu til baka þótt þeir verði fyrir óþægindum vegna rannsókna og þurfi hugsanlega að taka út einhverja refsingu.

Endurheimt ólögmæts hagnaðar er því réttlætismál í sjálfu sér. Takist endurheimt hefur það fælingarmátt gegn frekari brotum og getur skapað ákveðna sátt eða tiltrú um að þrátt fyrir allt búum við í samfélagi þar sem réttlætið nær fram að ganga. Þannig skapar endurheimt almennan varnað og eflir réttarvitund og öryggistilfinningu í samfélaginu. Við stefnum þegar í þá átt í löggjöfinni, en það er mikilvægt að halda áfram þannig að nýtt fyrirkomulag rannsóknar og saksóknar feli í sér vel útfærða löggjöf á því sviði og markvissari framkvæmd.

Að því sögðu hlakka ég til vinnunnar í allsherjar- og menntamálanefnd við að fara nánar í skýrsluna og fá tækifæri til að kynnast ítarlega þeim tillögum sem þar eru lagðar fram.