143. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2014.

rannsóknir og saksókn í efnahagsbrotamálum.

283. mál
[15:47]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra þessa skýrslugjöf og vil segja að í skýrslunni kennir margra grasa. Við höfum að sjálfsögðu ekki fengið mikinn tíma til þess að fara yfir hana, en það eru þó mjög athyglisverðir punktar sem þar koma fram.

Fyrir það fyrsta vil ég segja að þetta minnir okkur á það að Ísland glímir við þann vanda sem þjóðfélag að þurfa sömu beinagrind og milljónaþjóðir, þurfa sama „infrastrúktúr“, með leyfi forseta, og þjóðir sem eru margfalt á við okkur í stærð. Þetta erum við minnt á þegar við horfum framan í það sem fram kemur í skýrslunni að það eru níu stofnanir á Íslandi sem annast rannsókn og saksókn efnahagsbrota. Einhvern tímann var þessu líkt við að þetta væri sambærilegt því að reyna að strekkja músarham á beinagrind af fíl þegar menn koma sér upp þeim nauðsynlegu stofnunum sem Íslendingar þurfa að hafa til þess að geta rekið samfélagið.

Að mörgu leyti er stofnanastrúktúr okkar samt sem áður gallaður og þarfnast endurskoðunar. Í mínum flokki höfum við verið óhrædd við að minna á þetta og minna á nauðsyn þess að menn nálgist þessi viðfangsefni samfélagsins með það í huga að takast á við þau eins og við mundum gera ef við værum að byrja upp á nýtt.

Hvað þennan málaflokk varðar tel ég að hér sé á ferðinni mjög gott fyrsta skref. Það er góð aðferð að vinna að endurskoðun með þessum hætti, búa til nefndir sem safna saman upplýsingum, horfa til annarra landa eins og hér er gert. Hér er til dæmis farið yfir skipulag rannsókna efnahagsbrota annars staðar á Norðurlöndum, a.m.k. í Danmörku og Noregi, og mjög mælst til þess að hér á landi verði byggð upp hliðstæð efnahagsbrotastofnun og í nágrannalöndunum.

Ég vil líka hvetja hv. allsherjarnefnd að hafa það í huga að við höfum glímt við það í stjórnmálum okkar að léleg stjórnmálamenning hefur leitt til vondrar stofnanauppbyggingar. Okkur hefur gengið illa að fara í gegnum endurskipulagningar. Nýleg dæmi sanna það hvernig stjórnmálamenningin getur haft neikvæð áhrif. Ég nefni lög um náttúruvernd. Ég nefni skipan stjórnar Ríkisútvarpsins þar sem við flækjum málin óþarflega fyrir okkur með vondri stjórnmálamenningu. Það hefur auðvitað áhrif á allt kerfið.

Við þurfum að gæta að því þegar kemur að þessum málaflokki að það sama hendi ekki. Hér verði farið af stað með þverpólitískum hætti og mótuð stefna. Hér er búið að vinna ákveðna forvinnu upp í hendurnar á allsherjarnefnd sem getur haldið áfram með málið. Ég hvet okkur öll til þess að vanda sérstaklega til verka þannig að sú vinna sem lögð hefur verið í þessa skýrslu og lögð verður í þennan málaflokk innan nefndarinnar og í þinginu, ónýtist ekki.