143. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2014.

rannsóknir og saksókn í efnahagsbrotamálum.

283. mál
[15:59]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Í þessari skýrslu er fjallað um margvísleg álitaefni og sett fram mörg athyglisverð sjónarmið og ágætar tillögur og ástæða til að þakka hæstv. ráðherra fyrir skýrslugjöfina og nefndinni fyrir skýrsluna og ráðherranum fyrir að setja þessa umræðu á dagskrá. Ég hygg að sú umræða geti orðið góður grunnur fyrir þá þörfu umræðu sem þarf að fara fram um þetta málefni í þinginu og þjóðfélaginu almennt.

Það er mikilvægt fyrir okkur að sameina krafta í rannsóknum og ákærum í efnahags- og skattalagabrotum. Það er mikilvægt vegna þess að við þurfum að ná betri árangri í baráttunni við hvítflibbaglæpi en við gerðum á árunum fyrir hrun. Það gerum við með því að sameina stofnanir en líka með því að gera það auðveldara að gera upptækan ólögmætan ávinning af hvítflibbaglæpum.

Að sameina þær stofnanir sem að þessu vinna virðist býsna augljóst fyrir 0,3 milljón manna þjóð að gera. Ég hneigist til þess að ganga heldur lengra í þeim efnum en skemur því við eigum að nýta okkur það að músin, sem hér var nefnd fyrr í umræðunni, getur bæði verið liprari og snarpari en fíllinn í athöfnum sínum. Það virðist líka augljóst að margvísleg þekking og upplýsingar geta nýst bæði í efnahagsbrotaþættinum og skattabrotaþættinum. Það virðist augljóst að það geti orðið tvíverknaður við að rannsaka mál svo skyld á tveimur stöðum. Það skiptir kannski ekki síst máli að hætta er á því að spilla fyrir saksókn með því að hafa þetta á tveimur stöðum, það að sótt hafi verið vegna brota á öðrum þættinum komi í veg fyrir að hægt sé að sækja vegna brota á hinum þættinum, vegna þess að mörk brotanna séu óskýr og ekki má refsa borgara tvívegis fyrir sama brot eins og við þekkjum.

Hitt er síðan alveg sérstakt fagnaðarefni að hér komist aftur á dagskrá upptaka ólögmæts ávinnings. Ég flutti á síðasta kjörtímabili þingmál um það efni og átti þess kost að ræða það mál á opnum fundi við forstjóra Europol. Ég hef ákafa og eindregna sannfæringu fyrir því að það besta sem við gerum til þess að fást við pappírsbrot og brot í fjármála- og bankastarfsemi og skattalagabrot, eins og hér urðu því miður allt of algeng í okkar litla landi, er að auðvelda upptöku hagnaðarins. Þetta eru skipulögð brot sem menn fremja þar sem þeir meta ávinninginn annars vegar og kostnaðinn hins vegar og skirrast stundum ekki við að sitja af sér dóma vegna þess að það getur einfaldlega borgað sig.

Það er umhugsunarefni að glæpaklíkur, alþjóðlegar glæpaklíkur sem áður lögðu alla áherslu á aðrar tegundir glæpa, eru farnar að gera glæpi af þessu tagi sem inntökupróf í söfnuði sínum. Þær eru farnar að sækja verulegan hluta af fjárhagslegum ávinningi sínum af lögbrotastarfsemi í efnahagsbrotastarfsemi. Það er í mínum huga áleitið að þegar menn verða uppvísir að og dæmdir fyrir að stunda efnahagsbrotastarfsemi sé ekki óeðlilegt að gera þá kröfu að þeir sýni fram á að þeir hafi unnið fyrir þeim eignum sem þeir kunna að eiga hér eða annars staðar með lögmætum hætti og að þær komi af lögmætri starfsemi vegna þess að þeir hafa sannarlega orðið uppvísir að því að stunda ólögmæta starfsemi og hafa af henni ólögmætan ávinning. Besta leiðin til þess að stunda forvarnir í þessu, koma í veg fyrir brotastarfsemi, er að menn tapi á því, að menn tapi þeim ávinningi sem þeir hugsanlega hafa ef þeir komast í kast við lögin.