143. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2014.

rannsóknir og saksókn í efnahagsbrotamálum.

283. mál
[16:14]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég fagna þessari skýrslu, en ég vil samt nota tækifærið líka og gera athugasemdir við það hvað þingmenn fá yfirleitt lítinn tíma til þess að kynna sér skýrslur sem hér eru lagðar fram. Það virðist vera vaninn að efnt er til umræðna jafnvel daginn eftir að skýrslur eru lagðar fram. Miðað við umfang verkefna okkar gefst okkur yfirleitt sjaldan tími til þess að kynna okkur skýrslurnar almennilega áður en efnt er til umræðna. Við fljóta yfirferð sýnist mér þetta vera mjög vönduð skýrsla og mjög mikilvægt að allsherjar- og menntamálanefnd taki hana til vandlegrar umfjöllunar.

Ég ætla á þessum stutta tíma einungis að leggja hugleiðingar í belg um þennan mikilvæga málaflokk. Ég held að það sé þrennt sem einkennir þetta viðfangsefni hér á Íslandi, sem er rannsókn efnahagsbrota. Það er í fyrsta lagi að ég held að við séum mjög skammt á veg komin sem þjóðfélag í að feta okkur inn á þær brautir að rannsaka almennilega þessi gríðarlega umfangsmiklu brot. Ég held við séum með mjög ungan stofnanastrúktúr í þessu. Efnahagsbrotadeildin var stofnuð 1995. Í öðru lagi held ég líka að við séum tiltölulega nýbúin að uppgötva að Íslendingar svíkja, að á meðal Íslendinga séu fjárglæframenn og fólk sem er fyrir sinn hatt jafnvel búið að ná talsverðum árangri í þeim efnum. Ég held að Íslendingar hafi bara ekkert áttað sig á þessu. Þess vegna var kannski ekki lögð mikil áhersla á að byggja upp svona rannsóknardeildir vegna efnahagsbrota á Íslandi. Í þriðja lagi held ég að verkefnið fyrir hendi sé að draga lærdóm af ógnarstórum áföllum hvað þetta varðar.

Ég segi að það hafi tekið okkur smátíma, við erum kannski nýbúin að því, að átta okkur á því að á meðal Íslendinga er fjársvikafólk. Það var reyndar ágætisviðtal við Guðrúnu Johnsen, lektor og hagfræðing, í fjölmiðlum í vikunni. Hún er nýbúin að gefa út bók sem heitir, með leyfi forseta, Bringing Down the Banking System. Lessons from Iceland. Í henni rekur hún ágætlega það sem hér var í gangi fyrir hrun. Það er lærdómurinn sem við þurfum að draga. Bankar voru hér að vaxa á ársgrundvelli um 70% á meðan eðlilegur vöxtur er kannski 5%. Þetta virtist ekki hringja neinum viðvörunarbjöllum á Íslandi. Hvernig samfélag var þetta? Við vorum nýbúin sem samfélag að selja ríkisrekna banka og meðal þeirra sem fengu að kaupa bankana var fólk sem hafði verið dæmt fyrir fjárglæfrastarfsemi. Svo grandvaralaus vorum við og höfum verið í þessum efnum.

Ég held að það skrifist á alls konar ástæður. Þetta er lítið samfélag. Maður þekkir mann. Ég held að um langt skeið hafi Íslendingar haldið að allt væri leyfilegt í fjármálum. En við rákum okkur allþokkalega á það í efnahagshruninu að þannig getur það auðvitað ekki verið.

Samfélagið fór svolítið úr því að álíta að hér væru engir fjársvikamenn yfir í að álíta að allir væru fjársvikamenn. Mér finnst á þessum tímapunkti að við þurfum að ná jafnvægi í þessu. Nú þurfum við að nýta reynsluna sem hefur safnast upp í þessum málum meðal dómara og lögfræðinga og rannsakenda og koma þeim í tilhlýðilegan farveg þar sem við látum ekki atburði árin fyrir hrun (Forseti hringir.) endurtaka sig.