143. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2014.

rannsóknir og saksókn í efnahagsbrotamálum.

283. mál
[16:18]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Mig langar að byrja á því að þakka hæstv. innanríkisráðherra Hönnu Birnu Kristjánsdóttur fyrir að leggja þessa skýrslu fyrir þingið. Vegna þess að mönnum þykir við hafa fengið stuttan tíma til að kynna okkur hana er rétt að benda á að hún hefur verið á vef ráðuneytisins frá því í nóvember þannig að við höfum haft full tök á því að lesa hana. Skýrslan er vönduð og vel unnin og ber að þakka nefndarmönnum fyrir vinnuna.

Það hefur komið fram að skýrslunni verður nú vísað til allsherjar- og menntamálanefndar. Það verður áhugavert viðfangsefni fyrir okkur í nefndinni að setjast yfir þetta og reyna að átta okkur á því hvernig þessum mikilvæga málaflokki er best fyrir komið.

Mig langar að byrja á því að segja að það kemur mér á óvart að í raun leggur nefndin eingöngu fram tvær tillögur í megindráttum. Ég hélt að við mundum sjá jafnframt tillögu um að færa verkefnin til þeirra stofnana sem nú þegar eru fyrir hendi, eins og gert er ráð fyrir í lagaákvæðinu sjálfu þar sem fjallað er um að embætti sérstaks saksóknara sé tímabundið embætti. Í ákvæðinu kemur fram að gert sé ráð fyrir því að verkefni embættisins hverfi til lögreglu eða ákæranda eftir almennum ákvæðum lögreglulaga og laga um meðferð sakamála. Ég hélt að ein af tillögunum yrði um að gera það og hvernig það yrði best útfært.

Það er hins vegar fjallað um þetta í kafla 10.6 Rannsókn og saksókn færð til ríkislögreglustjóra eða lögregluembætta. Þar fer nefndin í mjög stuttu máli yfir þá möguleika sem til staðar eru, sem nefndin telur helst vera þrjá, og kemur síðan með örstuttan rökstuðning fyrir því hvers vegna nefndin leggur ekki til að sú leið sem er í ákvæðinu verði farin. Ég hélt fyrir fram að hún yrði viðameiri þáttur í þessari skýrslu. En við tökum þetta til skoðunar eins og annað í nefndinni.

Af þeim tveimur tillögum sem hér liggja fyrir gengur sú síðari mun lengra, hún snýst um að sameina starfsemi skattrannsóknarstjóra og embættis sérstaks saksóknara í nýtt rannsóknarákæruembætti á sviði skattalaga- og efnahagsbrota. Vissulega er hér um stórt skref að ræða og viðamiklar breytingar. En þetta er áhugaverð hugmynd og ljóst að sú leið mundi fela í sér meiri hagkvæmni fyrir íslenskt samfélag. Í fljótu bragði þykir mér þetta mjög áhugaverð leið til að skoða.

Nefndin mun fara ítarlega yfir þessa skýrslu og mynda sér skoðun á því hvernig þessum málum er best fyrir komið. Ég vil þakka ráðherranum fyrir að fela okkur í nefndinni þetta verkefni.