143. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2014.

rannsóknir og saksókn í efnahagsbrotamálum.

283. mál
[16:21]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil fyrst og síðast þakka þingmönnum fyrir þá fínu umræðu sem hefur verið um þessa skýrslu og mikilvægi hennar. Ég er mjög þakklát og ánægð með hversu góður tónn er í þingmönnum hvað þetta verkefni varðar og er sannfærð um að það sé rétt ákvörðun að beina verkefninu til þingsins og beina því til hv. allsherjar- og menntamálanefndar að hún fari yfir skýrsluna, yfir þau verkefni sem þar eru. Ég treysti nefndinni mjög vel til þess að veita þeirri sem hér stendur og þingheimi öllum leiðsögn um framhaldið og það hvernig best sé að halda á þessum mikilvægu verkefnum.

Ég tek undir mjög margt og reyndar kannski allflest af því sem komið hefur fram í máli þingmanna. Nefndin mun sjálfsagt fara yfir forsendur þeirra tveggja leiða sem þarna eru lagðar fram. Það er rétt sem fram kemur hjá hv. þingmanni og formanni allsherjar- og menntamálanefndar að einhverjir hefðu talið að það væri líka einnar messu virði að fara yfir hvort þessu hefði einnig verið og jafn vel fyrirkomið innan lögreglunnar sjálfrar eins og verið hefur. Það var hins vegar uppleggið í þessari vinnu að efnt yrði til þess að setja á laggirnar sérstaka stofnun til að fara með verkefnið og nefndin vinnur eðlilega út frá því.

Ég ítreka einnig þakkir mínar til nefndarinnar. Ég tek undir með hv. þingmönnum sem hafa nefnt hversu vel er að verki staðið, hversu vel skýrslan er útfærð og hversu miklar og mikilvægar upplýsingar koma fram um fyrirkomulag þessara mála hér á landi og annars staðar og hversu góða leiðsögn nefndin veitir okkur til að halda áfram og taka þessar ákvarðanir.

Ég tek líka undir það með þeim sem hér hafa talað að ég held að ákveðin tímamót séu fólgin í því og mikilvægt fyrir íslenska þjóð eftir ástandið sem skapaðist hér og hefur verið undanfarin fimm ár og hefur meðal annars endurspeglast í þörfinni fyrir sérstakan saksóknara að undirbúa framtíðina sem er framtíð sem ekki einkennist af þeim krísukenndum viðbrögðum sem þá voru nauðsynleg, ég dreg ekki úr því, að við komumst aftur á þann stað að við getum búið við ástand sem er eðlilegra, varanlegra og meira í samræmi við það sem nágrannaþjóðirnar búa við.

Þess vegna hefur það verið alveg skýr afstaða þeirrar sem hér stendur, og er í samræmi við stefnumörkun sem þingið lagði til þessa máls á sínum tíma, að þetta sé síðasta starfsár sérstaks saksóknara. Það þýðir ekki að verkefnin séu ekki unnin og þeim sé ekki sinnt. Það þýðir að fyrirkomulagið verður með hefðbundnara og eðlilegra sniði. Fyrir utan það, eins og þingheimur hefur orðið var við, hafa mál hjá sérstökum saksóknara gengið eftir áætlun og ljóst að staða verkefnanna getur verið þannig að vel sé hægt að miða við og ganga út frá því, líkt og gert er í skýrslunni og í stefnumótun ráðuneytisins, að þetta sé síðasta starfsár sérstaks saksóknara og við taki nýtt fyrirkomulag 1. janúar 2015. Að því stefnir sú sem hér stendur og að því er unnið á vettvangi ríkisstjórnarinnar.

Ég vonast til og veit að starfið í allsherjar- og menntamálanefnd mun taka mið af því að tryggja að sú sem hér stendur og þingheimur allur fái leiðsögn frá nefndinni um hvernig farsælast sé að halda áfram og að við náum góðri sátt um það þannig að við getum tryggt og verið sannfærð um að fyrirkomulag efnahagsbrota á Íslandi sé á þann hátt sem best þekkist og eins og við viljum hafa það í framtíðinni.