143. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2014.

sóknaráætlun skapandi greina til þriggja ára.

267. mál
[17:01]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Við ræðum um þingsályktunartillögu um sóknaráætlun skapandi greina til þriggja ára. Þar segir, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að beina því til mennta- og menningarmálaráðherra að leggja fram sóknaráætlun skapandi greina til þriggja ára í framhaldi af fjárfestingaráætlun frá árinu 2012 og skýrslunni Skapandi greinar – sýn til framtíðar frá sama ári.“

Ég er hér með áhugaverða skýrslu um kortlagningu á hagrænum áhrifum skapandi greina. Mig langar að fókusera á hvar útflutningstekjurnar koma inn og taka þá vinkilinn út frá því hvað Píratar eru að hugsa í þessum málum. Menn geta séð graf á mynd nr. 15 þar sem rauða línan sýnir útgáfu tölvuleikja. Útflutningstekjurnar eru þar 13 milljarðar. Ef við skoðum síðan tölurnar hérna frá árinu 2009 um útgáfu tölvuleikja er virðisaukaskattsskyld velta rúmir 13 milljarðar og útflutningstekjurnar líka þannig að nánast allt af virðisaukaskattsskyldu veltunni skilar sér inn til landsins í formi gjaldeyris. Það er alveg gríðarlega ánægjulegt. Þetta eru eins og ég segi tölur frá 2009 og síðan þá hafa önnur tölvuleikjafyrirtæki á Íslandi haslað sér völl eins og allir þekkja. Appið QuizUp er að slá í gegn hjá Plain Vanilla. Þetta er greinilega vaxtarbroddur.

Mig langar líka að benda á það í samhenginu að bæði upplýsingatækni og tölvuleikjaframleiðsla, „entertainment“ almennt, er í miklum uppgangi í heiminum og er fyrirséð að það verður í uppgangi á næstu árum. Þarna eru gríðarleg tækifæri í boði. Við erum að ræða sóknaráætlun skapandi greina og það sem virðist skipta miklu máli er viðskiptaumhverfið sem frumkvöðlarnir búa við. Ég er búinn að tala við marga þeirra í þessum geira. Þeir tala minna um peningana. Þeir segja að, jú, að sjálfsögðu skipti máli að það séu styrkir og benda á að sjóðir til að styrkja sprotafyrirtæki og nýsköpun séu þurrausnir. Það er ekkert til og þar þarf vissulega að bæta en þeir tala meira um mikilvægi lagaumhverfisins. Það er nokkuð sem ég treysti Sjálfstæðisflokknum til að taka vel á. Hann er með atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Ég hef talað við hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Ragnheiði Elínu Árnadóttur, og þetta er sá vinkill sem ég mundi vilja taka á þetta, að megnið af útflutningstekjunum sem við fáum inn er frá tölvuleikjaframleiðendum.

Svo kemur framleiðsla á kvikmyndum og myndböndum. Þar var mikil velta 2009. Þetta eru 9,5 milljarðar. Af þeirri veltu koma til landsins í formi gjaldeyris útflutningstekjur upp á rúma 2,5 milljarða þannig að þar er líka stór broddur.

Þriðji stóraðilinn, líka í kringum 2,5 milljarða sem skila sér í útflutningstekjum, er smásala á fatnaði í sérverslun. Aðrir geirar skila ekki jafn miklu í útflutningstekjum en þar er líka samhliða velta innan lands.

Ég mun fylgjast með þessu máli áfram af áhuga. Birgitta Jónsdóttir er meðflutningsmaður þessarar tillögu og mun að sjálfsögðu halda áfram að vinna með ríkisstjórninni þegar kemur að því að skapa gott viðskiptaumhverfi fyrir sprotafyrirtæki sem eru kjarninn í því að ef við ætlum að auka útflutningstekjurnar okkar verðum við að hugsa um alþjóðlega geirann, fyrirtæki sem geta farið til útlanda. Í þessu tilfelli er það CCP sem stendur á bak við bróðurpartinn, ef ekki nánast allan partinn, af þessum útflutningstekjum í þessum skapandi iðnaði. Heilt yfir eru tölvuleikjaframleiðendur með yfir 50% af öllum útflutningstekjum af skapandi iðnaði.

Ég mun fylgjast mjög vel með því. Við vinnum áfram þingsályktunartillögur hvað það varðar að skapa hérna gott umhverfi til verðmætasköpunar með internetinu sem skilar mestu hvað varðar áhrif í skapandi greinum.