143. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2014.

sóknaráætlun skapandi greina til þriggja ára.

267. mál
[17:06]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Hv. framsögumaður upplýsti okkur um það að hún hefði lifað af kreppuna með því að borða slátur. Ég held að við höfum líka sannfærst um það af hennar ágætu ræðu að Íslendingar lifðu kreppuna af sem þjóð með því að hella í sig menningu. Það var alveg rétt sem hv. þingmaður sagði að eitt af svörum þjóðarinnar við kreppunni var að neyta menningar meira en nokkru sinni fyrr.

Á þeim erfiðu tímum var ég iðnaðarráðherra og ég varð þess líka gjörla var að með sérkennilegum hætti var eins og kreppan skæri fjötur af sköpunarkrafti þjóðarinnar. Það varð eiginlega stökkbreyting á fjölda þeirra hugmynda sem bárust inn til ráðuneytisins og sjóða undir því sem fólu í sér nýjar hugmyndir að nýjum störfum og nýrri sköpun. Við svöruðum því á þeim tíma með því að búa til nýja styrki þrátt fyrir hinar hörmulegu afleiðingar kreppunnar. Á þeim tíma voru búnar til tvær tegundir nýrra styrkja og í fyrsta skipti voru bókstaflega veittir peningar einungis út á hugmyndir. Það er merkilegt að þeir tveir styrkflokkar sem annars vegar fólu í sér framlög upp á 5 millj. kr. og hins vegar 10 millj., örugglega mjög litlar upphæðir, skiptu miklu máli fyrir frumkvöðla sem höfðu ekkert nema hugmyndina eina. Síðan lifa allnokkur fyrirtæki og eru búin að taka sér bólfestu í þeim ágæta klasa nýsköpunarfyrirtækja sem borgarstjórn Reykjavíkur, undir farsælli stjórn núverandi meiri hluta, hefur búið um í næsta nágrenni mínu þar sem ég bý út við Örfirisey.

Ég er þeirrar skoðunar, öndvert við hv. þm. Pál Val Björnsson, að það sé ekki sú staðreynd að hugmyndirnar sem lágu að baki fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar komu frá öðrum flokkum sem leiddi til þess að núverandi hæstv. ríkisstjórn hefur kosið að varpa þeim fyrir róða. Ég held að miklu frekar hafi verið að núverandi ríkisstjórn bráðlá á að skrúfa hjól atvinnulífsins í gang og hún veðjaði á einn hest. Sá hestur var stóriðja. Við munum það hvernig flokkur hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur (Gripið fram í.) og Sjálfstæðisflokkurinn lögðu á það mikla áherslu í kosningabaráttunni að það væri einungis aumingjaskapur núverandi ríkisstjórnar sem gerði það að verkum að ekki var búið að láta rísa stóriðju í Helguvík með því einu að smella fingri. Af því að hv. þingmaður flögrar eins og pólitískt fiðrildi um þennan sal er rétt að rifja það upp að á fyrstu dögum núverandi ríkisstjórnar töluðu flokksmenn hv. þingmanns og okkar ágæti hæstv. iðnaðarráðherra með þeim hætti að ekki þyrfti annað en að rétta út höndina og seila inn stóriðju. Nú sjáum við hvernig það hefur farið. Staðan í því máli er allt öðruvísi en menn töldu og líkurnar á þeirri framkvæmd hafa farið snöggtum minnkandi. Ég held þess vegna að sú tillaga sem hér liggur fyrir sé tímabærari en nokkru sinni fyrr.

Við Íslendingar þurfum með einhverjum hætti að leggja grunn að framtíð sem skapar meiri verðmæti. Það er alveg rétt sem hér hefur komið fram í máli sumra sem hafa talað yfir þetta púlt í tilefni af þingsályktunartillögunni sem við ræðum hér að Ísland býr að góðum og öflugum auðlindum. Sumar þeirra eru kannski komnar fast að nýtingarmörkum eins og a.m.k. fiskaflinn. Það er þó hárrétt eins og þingmenn hafa rifið hér upp að enn eru margvísleg verðmæti ónýtt úr hafinu en ég held að við sækjum ekki mikið meira magn en umfram þau kannski 250–280 þúsund tonn af þorski sem við munum veiða á næstu árum og síðan það sem við tökum úr öðrum stofnum. Við eigum að vísu ónýttar orkulindir og sem betur fer er búið að samþykkja rammaáætlun um vernd og nýtingu sem gerir það að verkum að menn geta ráðist í að skapa verðmæti úr þeim sem sátt er um að nýta. Sannarlega eigum við líka í hafinu norðan Íslands hugsanlega olíulindir. (Gripið fram í.) Það er fugl í skógi. Hv. þingmaður sem hér kallar fram í veit að það er líka hægt að sækja margvíslega þekkingu til hins ágæta Evrópusambands (Gripið fram í.) þó að hún sjái ekkert nema svart þegar á það er minnst.

Þær auðlindir sem við búum að eigi að síður eru takmarkaðar. Hagkerfi framtíðarinnar mun byggjast á þekkingu og það sem þessi tillaga, sem ég styð af heilum hug, miðar að er auðvitað að púkka meira undir þann vegg sem við byrjuðum að hlaða í tíð síðustu ríkisstjórnar og framtíðariðnaður á Íslandi á að hvíla á, menningartengdur iðnaður, þekkingariðnaður. Það er það sem skiptir máli fyrir okkur í framtíðinni, fyrir hinar nýju kynslóðir, að okkur takist að skapa samfélag, hvort sem við erum utan eða innan Evrópusambandsins, sem stenst samanburð við bestu samfélögin í nágrenninu. Ef okkur tekst ekki að skapa hér flóru fyrirtækja af margvíslegum toga sem bjóða vinnufúsum höndum framtíðarinnar upp á störf, vel launuð störf sem henta hámenntuðu fólki, því þannig verða Íslendingar framtíðarinnar, munum við missa það sem okkur er sárast að tapa sem er blómi sérhverrar kynslóðar. Þess vegna er mikilvægt að við linnum ekki því verki sem hafið var í tíð síðustu ríkisstjórnar.

Ég tel að sú skýrsla sem hv. þingmaður, nafna hennar Júlíusdóttir og ég lögðum grunn að með því að hefja það verk sem leiddi til tímamótaskýrslu í atvinnusögu Íslendinga, skýrslunnar um skapandi greinar, hafi verið mjög mikilvægt fyrsta skref að því að marka pólitíska stefnu á þessu sviði. Það hafði aldrei verið gert með svo yfirgripsmiklum hætti þó að vissulega hafi margar fyrri ríkisstjórnir stigið ágæt skref til að efla undirstöðu einstakra skapandi greina eins og á sviði kvikmyndalistar, hönnunar og tölvuleikja. Hv. þingmaður sem talaði hér áðan sagði að það hefðu aldrei neinir styrkir runnið til tölvuleikjaframleiðslu. Það er ekki alveg fullkomlega rétt. Þeir aðilar hafa líka getað sótt úr rannsóknarsjóðum. En það skiptir máli að halda þessu verki áfram.

Þegar við horfum yfir sviðið í dag sjáum við að nýr atvinnuvegur hefur sprottið fram sem mikilvægasta uppspretta gjaldeyris á Íslandi. Það er ferðaþjónustan. Hingað sóttu menn löngum til að skoða einstaka náttúru, norðurljós og fleira en það er athyglisvert þegar menn skoða og greina hvað það er sem teygir allan þennan fjölda útlendinga til Íslands að það er ekki lengur bara náttúran og sérstaða Íslands á því sviði sem virkar eins og segulmagn. Ég átti þess kost í starfi mínu sem utanríkisráðherra á síðasta kjörtímabili að fylgjast t.d. með þeim könnunum sem verið var að gera í Bandaríkjunum vegna verkefnisins Iceland Naturally um hvað það var sem dró menn til Íslands frá Bandaríkjunum. Það var athyglisvert að sjá í gegnum árin hvernig ný viðmið komu fram og nýir hlutir voru að verða til á Íslandi sem gerðu það að aðlaðandi kosti til að ferðast til. Að sjálfsögðu var það náttúran, norðurljósin og hin sérstaka fegurð Íslands sem áfram fékk menn til að lyfta höfði og augum til Íslands. En það kom alveg skýrt fram að það voru skapandi greinar, menningin, kvikmyndir og ekki síst tónlist sem höfðu skapað nýja segla hér á landi. Þannig að hvað hjálpar öðru. Þegar við reynum að styrkja ýmsar gerðir skapandi greina eins og kvikmyndir, eins og framleiðslu góðra bóka og framleiðslu tónlistar erum við líka að búa til segulmagn fyrir ferðaþjónustuna. Því mega menn ekki gleyma.

Ég er þeirrar skoðunar að sú tillaga sem hér liggur fyrir sé þess eðlis að hún horfi til framtíðar og ég held að þeir sem skipa þingflokka núverandi ríkisstjórnar eigi ekki að láta það trufla sig að hún byggir á hugmyndafræði sem var mótuð af hálfu fyrrverandi ríkisstjórnar. Ég held að allir þeir sem vilja Íslandi vel ættu að leggjast á sveifina með okkur sem styðjum þessa tillögu og flutningsmönnum hennar, formönnum fjögurra stjórnmálaflokka. Auðvitað gladdi það mig líka eins og hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur að það var engu líkara en að hæstv. forsætisráðherra hefði umbreyst undir handleiðslu hennar þegar hún laust töfrasprota orða sinna á hann í þeim þætti sem hér var nefndur, Kryddsíldinni, mig minnir að það hafi verið þá sem hann tók skyndilega þessa hugmyndafræði í kjöltu sína og sagði algerlega skýrt að þessi ríkisstjórn stefndi að því að leggja fram áætlun á sviði skapandi greina.

Nú hefur hann tækifærið. Það er talað um af hálfu stjórnarherranna að menn vilji meira samráð. Hér er rétt hönd til samvinnu yfir púlt Alþingis og ég held að það væri öllum farsælt og ekki síst núverandi hæstv. forsætisráðherra að taka þétt í hönd hennar.