143. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2014.

lagaskrifstofa Alþingis.

271. mál
[17:49]
Horfa

Flm. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þarna komum við að því að það er mismunandi skilningur á lykt og ilmi þannig að það sé líka sagt að mér finnst Evrópulykt ekki það sama og Evrópuilmur. Það er þó önnur saga.

Eins og þingheimur veit sit ég í hagræðingarhópi ríkisstjórnarinnar þar sem meðal annars þetta málefni kom á dagskrá. Fengi ég að ráða teldi ég langfarsælast að flytja lagaskrifstofu Stjórnarráðsins til þingsins með því fjármagni sem nú er sett í Stjórnarráðið. Ég hef ekki kannað menntun þeirra aðila sem eru í lagaskrifstofunni í Stjórnarráðinu, hvort þeir uppfylli þær kröfur um menntun sem eru settar fram í frumvarpinu. Þar væri hægt að flytja til fjármagn innan fjárlaganna, raunverulega innan Stjórnarráðsins og löggjafarvaldsins. Þetta mundi jafnvel koma út á núlli, já.