143. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2014.

gjald af makrílveiðum.

[15:03]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Í hádegisfréttum útvarps var rætt við hæstv. sjávarútvegsráðherra Sigurð Inga Jóhannsson um stöðu makrílsamninganna við önnur ríki. Er sjálfsagt og rétt að taka undir með hæstv. ráðherra um mikilvægi þess að efnisleg sjónarmið séu lögð til grundvallar samningum í því efni og að vel sé haldið á hagsmunum Íslands.

Hæstv. ráðherra nefndi hins vegar að nú liði að því að íslenskar makrílveiðar hæfust á nýjan leik. Það leiðir hugann að því að við sömdum um það fyrir jól við forustu ríkisstjórnarinnar að sett yrði á fót nefnd sem hefði það að markmiði að kanna möguleika á álagningu gjalds á nýjar tegundir í íslenskri lögsögu eins og makríl, með það að markmiði að hægt verði að leggja slíkt gjald á yfirstandandi ári.

Ég vil þess vegna beina fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra um hvort hann sé ekki sammála því að það skipti máli að vinda nú bráðan bug að því að kjósa til þeirrar nefndar sem fara á í þetta verkefni, enda mjög mikilvægt að við innheimtum gjöld af nýjum tegundum í íslenskri lögsögu en gefum ekki aðgang að auðlindum í almannaeigu. Ég vil líka spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hann sé ekki sammála okkur í þeirri efnislegu áherslu að mikilvægt sé að gjald verði lagt á eins og í tilviki makrílsins þegar um er að ræða nýja tegund í íslenskri lögsögu sem enginn útgerðaraðili hefur skuldsett sig til að kaupa kvóta til veiða á.