143. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2014.

afnám verðtryggingar.

[15:08]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Í síðasta fyrirspurnatíma ræddi ég við hæstv. forsætisráðherra um þær tillögur sem hafa núna komið fram frá sérfræðingahópi um afnám verðtryggingar. Í máli mínu kom fram að hann hefur aðeins verið mismunandi, málflutningur ólíkra stjórnmálaflokka fyrir síðustu kosningar þegar kemur að málefnum verðtryggingarinnar þó að allir virtust leggja áherslu á að draga úr vægi hennar.

Hæstv. forsætisráðherra sagði mér að hann teldi vel mögulegt að afnema verðtrygginguna á þessu kjörtímabili og fór yfir að þótt það væri einfalt í sjálfu sér væru hins vegar mótvægisaðgerðirnar sem til þyrftu heilmiklar og vísaði að sjálfsögðu til skýrslu sérfræðingahópsins.

Hæstv. fjármálaráðherra hafði samkvæmt fréttum allan fyrirvara á að raunhæft yrði að afnema verðtryggingu með öllu árið 2016 en það kom fram í tillögum nefndarinnar að þá ætti að fara að undirbúa fullt afnám. Mig langar að nota tækifærið hér til að inna hæstv. fjármálaráðherra eftir hans sýn á þessu málefni, hvort hann telji raunhæft að verðtrygging verði afnumin á kjörtímabilinu, hvort það náist að fara í þær mótvægisaðgerðir sem þarf að fara í ef afnema á verðtryggingu. Hvað telur hann þá um tillögu sérfræðingahópsins sem lýtur að því að hætta alfarið með 40 ára verðtryggð lán í ljósi þess að hann hefur áður sagt að hann telji mikilvægt að fjölga valkostum en ekki fækka þeim? Er hæstv. fjármálaráðherra reiðubúinn að greina okkur frá sinni sýn á þau mál hér og nú?