143. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2014.

afnám verðtryggingar.

[15:13]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég tel ótímabært að fullyrða nokkuð um getu okkar til að afnema verðtryggingu með öllu. Það eru þessi verkefni sem við eigum að beina sjónum okkar að. Leysist þau farsællega er vissulega hægt að stíga mun stærri skref og á endanum mögulega að tryggja fullnægjandi framboð af lánamöguleikum þar sem uppistaðan verður óverðtryggð lán með föstum vöxtum til lengri tíma.

Varðandi 40 ára lánin er það eðli þeirra að hluti afborgunar af höfuðstól er tekinn að láni og skeytt aftan við lánið eða inn á höfuðstólshækkun. Það er eðlislíkt því að taka lán þar sem ekki eru greiddir nema vextir eða að fresta öllum höfuðstólsgreiðslum um einhvern tiltekinn tíma. Í öðrum löndum hefur það leitt til of hárrar skuldsetningar. Við sjáum til dæmis gríðarlega skuldsetningu heimilanna í Danmörku, sömuleiðis í Bandaríkjunum þar sem varð mikil eignabóla sem sprakk með neikvæðum afleiðingum (Forseti hringir.) fyrir fjármálakerfi heimsins. Þar er reynt að draga úr lánum af þessu tagi og bann við 40 ára verðtryggðum jafngreiðslulánum er viðleitni (Forseti hringir.) af sama tagi og stjórnvöld hafa gripið til á öðrum stöðum.