143. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2014.

orka frá Blönduvirkjun.

[15:22]
Horfa

Sigrún Magnúsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Alþingi samþykkti þingsályktun fyrir skömmu um að nýta orku Blönduvirkjunar til atvinnuuppbyggingar í Austur-Húnavatnssýslu. Ég spyr hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra hvað hann hyggist gera til þess að framfylgja stefnumörkuninni sem fólst í þeirri samþykkt.

1. Verður skipaður starfshópur með heimamönnum til að fara yfir möguleika svæðisins á því að koma upp iðnfyrirtækjum sem vilja nýta sér vistvænt afl eða græna orku frá heiðarlöndum Húnavatnssýslu?

2. Hvaða fyrirtæki eða hvers konar fyrirtæki telur ráðherrann helst koma til greina?

3. Er ekki sjálfhætt við Blöndulínu 3 til Akureyrar þegar búið er að ákveða að Blönduvirkjun verði nýtt fyrir heimahérað og atvinnuuppbygginguna þar? Blöndulína 3 er dýr framkvæmd og umdeild eins og allt sem lýtur að orku þessa lands. Nú höfum við gullið tækifæri til að sýna djörfung og dug og nýta rafmagn sem búið er til úr auðlindum þessa landsvæðis. Það er ákveðin hringrás, gefa og þiggja.

Það liggur þegar raflína frá Blönduvirkjun til Blönduóss. Þetta er stutt leið fyrir raflínu og því lítið sem ekkert orkutap á leiðinni. Þá liggur línan um byggð ból sem auðveldar allt viðhald og eftirlit. Það sparast mikill kostnaður við að hætta við Blöndulínu 3. Það ætti að verða enn auðveldara að setja fjármagn til uppbyggingar í héraði. Þetta er einn flottasti kostur okkar um þessar mundir til að sýna í verki samþættingu góðrar umhverfisstefnu og atvinnuuppbyggingar, hætta við ný háspennumöstur og nýta orkulind heiðarinnar til hagsbóta fyrir fólkið sem fórnaði hluta hennar undir uppistöðulón.