143. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2014.

orka frá Blönduvirkjun.

[15:28]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Þannig að hv. þingmaður misskilji mig ekki þá deili ég áhuga hennar á atvinnuuppbyggingu á þessu svæði og heiti því að við munum vinna að því í sameiningu. Ég tek undir að þetta er áríðandi verk. Þetta er áríðandi verk vegna þess að þarna eru aðstæður sem gefa vísbendingar um, og það er rétt sem þingmaðurinn segir, að byggð þar eigi undir högg að sækja.

Hvers konar fyrirtæki ætti að sækjast eftir er spurning sem ég svaraði ekki í fyrra andsvari. Í fyrsta lagi vil ég segja að ég ætla ekki að fara að velja þau fyrirtæki heldur tel ég að frumkvæðið verði að koma frá fyrirtækjunum sjálfum. Ég get upplýst að það hafa komið á minn fund aðilar meðal annars í gagnaversiðnaði og koltrefjaiðnaði sem hafa áhuga á að setja upp starfsemi hér og hafa þá litið til þessa svæðis.