143. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2014.

verðtrygging neytendalána.

[15:29]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er ótímabært að tala um að hægt sé að afnema verðtryggingu, sagði hæstv. fjármálaráðherra fyrr í þessum spurningatíma. Ég spyr þá hæstv. fjármálaráðherra: Er það stefna hans að banna verðtryggingu neytendalána? Er það stefna ríkisstjórnarinnar? Er unnið að því að gera það mögulegt að banna verðtryggingu neytendalána? Er kappkostað í fjármálaráðuneytinu að skapa þær aðstæður í efnahagslífinu að mögulegt sé á þessu kjörtímabili að banna verðtryggingu neyendalána?

Í öðru lagi, þegar hæstv. ráðherra segir að það sé ekki tímabært núna, er það þá ekki alveg alrangt, hæstv. ráðherra? Er það ekki einmitt núna, þegar gjaldeyrishöft eru í landinu, sem það er mögulegt, þegar fjármagnið getur ekkert flúið, þegar framboð af því er nóg? Og má ekki jafnvel halda því fram að það sé einmitt forsenda þess að hægt sé að afnema gjaldeyrishöftin að taka verðtrygginguna úr sambandi til að koma í veg fyrir að lán heimilanna geti stökkbreyst öðru sinni í tengslum við afnám hafta?

Og þegar hæstv. ráðherra segir að það sé gott að banna 40 ára verðtryggð lán þá minni ég á að það eru þau lán sem eignaminnsta fólkinu í landinu, fólkinu með lægstu tekjurnar, hefur staðið til boða í staðinn fyrir leigumarkaðinn. Ef það hefur tekið slík lán þá hefur það fengið úr ríkissjóði verulegar vaxtabætur til að mæta þessum kostnaði. Ef nú á að banna fólki að taka þessi lán og fá þannig vaxtabæturnar og setja það út á leigumarkaðinn er þá hæstv. ráðherra tilbúinn til að láta þetta fólk hafa húsaleigubætur sem eru sams konar og vaxtabæturnar eru í dag þannig að leigjendur á Íslandi fái sama opinbera stuðning og kaupendur?

Að síðustu lýsti hæstv. forsætisráðherra því yfir 15. mars sl. að fólki með verðtryggð lán yrði boðið að flytja sig yfir í óverðtryggð lán. Hvenær er ætlunin að standa við þetta gagnvart viðskiptavinum Íbúðalánasjóðs?