143. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2014.

verðtrygging neytendalána.

[15:31]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er dálítið erfitt að átta sig á því úr hvaða átt spurt er að þessu sinni, hvort einungis sé verið að leita eftir sjónarmiðum ráðherrans eða hvort verið er að tala fyrir einhverri stefnu og gagnrýna þá sem ríkisstjórnin fylgir. Mér heyrist ég geta gengið út frá því að hv. þingmaður sé að tala fyrir afnámi verðtryggingar strax, en ég rakti það hér í fyrra andsvari að ákveðnar hindranir eru í veginum fyrir því að gera það eins og sakir standa. Þær snúa að Íbúðalánasjóði, þær snúa að fjármögnun lífeyrissjóðakerfisins, þær snúa að því að við þurfum að taka til endurskoðunar húsnæðislánakerfið á Íslandi og tryggja að það myndist eðlilegt framboð óverðtryggðra lána og byggja undir þann markað þannig að hægt sé að festa vextina til lengri tíma svo að menn standi frammi fyrir alvöruvalkostum. En það eru vissulega tækifæri að skapast í íslensku efnahagslífi til að gera þessa hluti. Þegar við erum að ná tökum á verðbólgunni og við erum með ríkissjóð hallalausan eru vissulega aðstæður að skapast til að ná vaxtastiginu niður, mögulega byggja upp traust til lengri tíma sem gerir að verkum að slíkur valkostur verður til staðar.

Það er mín skoðun að meginatriðið sé að tryggja valfrelsi íbúðarkaupenda í þessu efni og þannig hefur Sjálfstæðisflokkurinn ályktað um að verðtryggðu lánin eigi ekki að vera einhver almenn regla á húsnæðislánamarkaði eða yfir höfuð í neytendalánum. Það er stefna Sjálfstæðisflokksins í þessu efni.

Mér sýnist að ítrekaðar skoðanir á málinu hafi sýnt fram á að ekki er hægt að stökkva úr einu ástandi yfir í annað. Það þarf að gerast í markvissum skrefum og í tillögum sérfræðinganefndarinnar eru skref í rétta átt sem vissulega geta haft afleiðingar ef ekki verður brugðist við með markvissum aðgerðum eins og ég hef hér talað um, uppbyggingu lánamarkaðarins að öðru leyti — og já, áfram verður að sjálfsögðu að vera til staðar stuðningskerfi fyrir þá sem lægstar hafa tekjurnar og eru eignaminnstir.