143. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2014.

kosning níu manna og jafnmargra varamanna í stjórn Ríkisútvarpsins, fjölmiðils í almannaþágu, að viðhafðri hlutfallskosningu, skv. 9. gr. laga nr. 23/2013 um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu.

[15:55]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Fyrst ákveðið var að hafa stjórn Ríkisútvarpsins pólitíska er kannski eðlilegt að hún endurspegli alþingiskosningarnar að einhverju leyti, en förum nú aðeins yfir þær. Rifjum aðeins upp hvernig alþingiskosningarnar fóru.

Stjórnarflokkarnir fengu 51,1% atkvæða. Ég mundi telja að markmiði um að stjórn Ríkisútvarpsins endurspegli hlutföllin í alþingiskosningunum sé ágætlega mætt með því að stjórnarflokkarnir hafi þar fimm fulltrúa og hinir flokkarnir fjóra. Það er sem sagt vel hægt að mæta því markmiði sem hæstv. menntamálaráðherra gerir mikið úr. Hið góða er að það er líka hægt að mæta öðru markmiði í sömu andrá, það er hægt að gera tvennt í einu. Það er hægt að mæta líka markmiðinu um fjölbreytileg sjónarmið í stjórn Ríkisútvarpsins með því að leyfa Pírötum áfram að hafa þar sæti. Þá eru sjónarmið allra flokka á þingi endurspegluð í stjórn RÚV. Og hvers vegna ekki að gera tvennt gott í einu í þessu máli?(Gripið fram í: Heyr, heyr.)