143. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2014.

kosning níu manna og jafnmargra varamanna í stjórn Ríkisútvarpsins, fjölmiðils í almannaþágu, að viðhafðri hlutfallskosningu, skv. 9. gr. laga nr. 23/2013 um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu.

[15:57]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég var mjög döpur þegar menn ákváðu að snúa inn á þá braut að gera stjórn Ríkisútvarpsins pólitíska að nýju og skipaða pólitískum fulltrúum. En síðan varð ég enn daprari í sumar þegar menn ætluðu með afli, ríkisstjórnarflokkarnir með 51,1% atkvæðamagns að baki sér, að svíkja samkomulag og tryggja sér og sínum 66,6% atkvæða í stjórn Ríkisútvarpsins. Þetta er lýðræðið sem hæstv. menntamálaráðherra boðaði hér áðan.

Virðulegi forseti. Ég er óskaplega döpur yfir þessu. Mér finnst þetta dapurlegur dagur að við séum að upplifa aftur í annað sinn á ekki lengri tíma að menn ætli að beita afli, slá hendi á móti sátt og samkomulagi um að skiptingin verði 5:4 til að berja það í gegn að meiri hlutinn fái sex á móti þremur mönnum stjórnarandstöðunnar og brjóta þannig samkomulagið. Það er dapurlegt að þetta verði veganesti nýs útvarpsstjóra sem hefur verið ráðinn með samþykkt (Forseti hringir.) allra sem í fráfarandi stjórn sitja. Þetta er þessari ríkisstjórn til háborinnar skammar og það er ekki sanngjarnt af henni að senda nýjan útvarpsstjóra með þetta veganesti inn í framtíðina.