143. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2014.

kosning níu manna og jafnmargra varamanna í stjórn Ríkisútvarpsins, fjölmiðils í almannaþágu, að viðhafðri hlutfallskosningu, skv. 9. gr. laga nr. 23/2013 um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu.

[15:58]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við stöndum hér enn og rífumst um blessað Ríkisútvarpið. Eftir umræðurnar í vor og umfjöllun, þegar verið var að breyta stjórninni, þá fannst mér og sagði það í ræðu minni að mér fyndist þetta hallærisleg ákvörðun hjá hæstv. menntamálaráðherra og ég stend við það. Það var aftur á móti mjög gleðilegt að niðurstaðan í kosningum skyldi verða 4:5. Ein af helstu röksemdafærslum hæstv. menntamálaráðherra var sú að það að vera með þetta skipað af þingi væri það langlýðræðislegasta því að hér væru kjósendur með fulltrúa sína. Mér fannst þetta mjög góð niðurstaða að þetta skyldi vera svona.

En ég vil bara skora á einn stjórnarþingmanna að setja bara B. Þá er það bara búið, þá þurfum við ekki að rífast um þetta mál lengur.