143. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2014.

kosning níu manna og jafnmargra varamanna í stjórn Ríkisútvarpsins, fjölmiðils í almannaþágu, að viðhafðri hlutfallskosningu, skv. 9. gr. laga nr. 23/2013 um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu.

[15:59]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þau voru bágborin, rök hæstv. menntamálaráðherra áðan, að það væri eðlilegt að stjórnin endurspeglaði sem mesta breidd. Er það aukin breidd í stjórn Ríkisútvarpsins að fjölga þar fyrrverandi þingmönnum, fyrrverandi sveitarstjórnarmönnum eða jafnvel starfandi sveitarstjórnarmönnum eða sveitarstjórum stjórnarflokkanna? Er það aukin breidd í stjórn Ríkisútvarpsins?

Þegar kemur að lýðræðisrökunum fellur stærðfræðin þannig í þessu tilviki að þessi undarlega fjölgun í stjórn, sem verður að markleysu þegar ekki er staðið við samkomulagið, leiðir til aukinnar yfirvigtar stjórnarflokkanna í stjórn Ríkisútvarpsins. Þeir fá 2/3 stjórnarfulltrúanna í stað þess að í fámennari stjórn, sjö manna stjórn, væru hlutföllin 4:3. Þessi uppákoma er algerlega fráleit í öllu tilliti. Til hvers að borga tveimur stjórnarfulltrúum meirihlutaflokkanna stjórnarlaun þarna í viðbót? (Forseti hringir.) Hvað hefur það upp á sig? Þetta er algjör fjarstæða. Ég skora á fulltrúa stjórnarflokkanna, nógu marga, (Forseti hringir.) að bjarga þeim í land frá þessari hneisu, og sérstaklega auðvitað hæstv. forsætisráðherra sem hér liggur sterklega undir grun (Forseti hringir.) um að vera sökudólgurinn sjálfur.