143. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2014.

kosning níu manna og jafnmargra varamanna í stjórn Ríkisútvarpsins, fjölmiðils í almannaþágu, að viðhafðri hlutfallskosningu, skv. 9. gr. laga nr. 23/2013 um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu.

[16:02]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Mig langar að rifja upp hvernig þetta gerðist allt saman. Hér kom frumvarp í sumar um að breyta því hvernig stjórn RÚV yrði háttað og hafa hana eins og hún var áður en lögin sem voru í gildi voru sett. Það var bent á að þetta væri bæði ógegnsærra og ólýðræðislegra ferli og bent sérstaklega á að það sem væri ógegnsærra væri að stjórn RÚV hefði ekki áheyrnarfulltrúa starfsmanna RÚV.

Það reyndist ómögulegt að rökstyðja þessa fáránlegu tillögu ríkisstjórnarinnar á þeim tíma þannig að auðvitað þurfti ríkisstjórnin að bakka með hana. Í staðinn kom önnur breyting, um að fjölga stjórnarmönnum úr sjö upp í níu til að auka breiddina, til að auka fjölbreytnina. Þannig var alla vega talað um það fyrst. Síðan gekk margt á hér í pontu og búið er að tala um það margsinnis og þar sem ég hef ekki tíma til að útskýra það sem á eftir kom vil ég bara benda á að ef markmiðið er gegnsæi þá var upphafleg hugmynd ríkisstjórnarinnar út í hött. Ef markmiðið er lýðræði (Forseti hringir.) vil ég frekar að Píratar missi svokallaðan sinn mann og stjórnin fari aftur niður í sjö menn. Höfum þetta þá fjóra af sjö(Forseti hringir.) vegna þess að það eru 57,1%, sem endurspeglar lýðræðið mun betur en þetta fyrirkomulag. Frekar vil ég missa okkar mann og hafa þá sjö stjórnarmenn. (Forseti hringir.)Það er lýðræðislega en að hafa þetta eins og hér er lagt til.