143. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2014.

kosning níu manna og jafnmargra varamanna í stjórn Ríkisútvarpsins, fjölmiðils í almannaþágu, að viðhafðri hlutfallskosningu, skv. 9. gr. laga nr. 23/2013 um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu.

[16:11]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég hlýt að andmæla þeim rökstuðningi hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra að það sé eðlilegt, eins og hann orðaði það hér, að hlutföllin í stjórn Ríkisútvarpsins taki mið af þingstyrk eins og hann er reiknaður út frá d'Hondt-reglunni í þingnefndum. Af hverju er það eðlilegt, hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra? Við erum ekkert að tala um þingnefndir. Við erum að tala um stjórn Ríkisútvarpsins sem var fjölgað í með þeim rökstuðningi að tryggja þar inni sjónarmið fjölbreytni. Svo er talað eins og það sé eðlilegt að nota hér d'Hondt-regluna eins og í hefðbundinni þingnefnd. Þetta er bara ekki boðlegur málflutningur.

Ég vil segja það líka eftir að hafa hlýtt á málflutning að ég hef miklar áhyggjur fyrir hönd Framsóknarflokksins að orðið framsóknarsátt sé að verða eitt stærsta öfugmæli íslenskrar tungu ef ekki er einu sinni hægt að ná sátt um þetta mál þar sem við erum að tala um stjórn stærstu menningarstofnunar landsins, (Forseti hringir.) að við getum ekki náð sátt um það að allir flokkar á þingi eigi þar fulltrúa.