143. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2014.

kosning níu manna og jafnmargra varamanna í stjórn Ríkisútvarpsins, fjölmiðils í almannaþágu, að viðhafðri hlutfallskosningu, skv. 9. gr. laga nr. 23/2013 um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu.

[16:14]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er ástæða til að harma hinn einbeitta brotavilja sem kemur fram í máli hæstv. ráðherra í þessu máli og algeran skort þeirra á skilningi á þeim lýðræðislegu grundvallarviðmiðum sem um er að tefla. Og það er sérstakt áhyggjuefni í ljósi þess að við erum nýbúin fyrir nokkrum dögum að ná að byggja upp víðtæka samstöðu í stjórn útvarpsins um nýjan útvarpsstjóra.

Ég held að það sé einsýnt, ef niðurstaðan hér verður að stjórnarflokkarnir sölsi undir sig 2/3 stjórnarmanna í RÚV með hálfsannindum og missögnum í sumar á sumarþinginu og með því að ganga á bak orða sinna í gerðum samningum, að fækka í stjórninni aftur niður í sjö þannig að það sé eðlileg hlutfallsskipting milli stjórnarflokkanna.

Margir þingmenn hafa útskýrt fyrir hæstv. menntamálaráðherra hverjar niðurstöður þingkosninganna voru, en það er full ástæða til að samhryggjast með nýjum útvarpsstjóra að þurfa að vinna undir (Forseti hringir.) yfirstjórn af þeim toga sem honum er boðið upp á hér.