143. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2014.

kosning níu manna og jafnmargra varamanna í stjórn Ríkisútvarpsins, fjölmiðils í almannaþágu, að viðhafðri hlutfallskosningu, skv. 9. gr. laga nr. 23/2013 um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu.

[16:15]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er óþarfi að rifja upp í löngu máli það sem rætt var um þetta mál síðastliðið sumar þegar við kusum í stjórn Ríkisútvarpsins á grunni þá nýlegra breyttra laga. Það varð ágæt samstaða um að sú fjölgun sem þá var lögð til í stjórninni skiptist milli stjórnar og stjórnarandstöðu en nú er komið að kosningu á nýjan leik og við sjáum hvernig hún fer á eftir.

Ég tel hins vegar að það væri góður bragur á því ef niðurstaðan yrði sú að stjórnin yrði skipuð með sömu hlutföllum og var síðastliðið vor og sérstaklega væri það góður bragur í kjölfar þeirrar ágætu sáttar sem tókst fyrir fáum dögum um ráðningu nýs útvarpsstjóra. Ég held að það væri gott veganesti fyrir hann og ekki síst fyrir Ríkisútvarpið sjálft sem þarf sannarlega á því að halda að það sé friður og ró um starfsemi þess.