143. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2014.

kosning níu manna og jafnmargra varamanna í stjórn Ríkisútvarpsins, fjölmiðils í almannaþágu, að viðhafðri hlutfallskosningu, skv. 9. gr. laga nr. 23/2013 um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu.

[16:19]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Hæstv. forsætisráðherra getur bullað eins og hann vill um afskipti sín eða ekki. Hann platar engan í þessum sal. Það er enginn sem hefur umboð til að afturkalla samning sem þingflokksformaður hans hefur gert annar en flokksformaðurinn sjálfur. (Gripið fram í: Það er rétt.) Það vitum við öll.

Hér var samningur gerður og hvað sem líður yfirklóri hæstv. menntamálaráðherra og hv. þm. Vilhjálms Árnasonar þá sagði Unnur Brá Konráðsdóttir formaður allsherjar- og menntamálanefndar í þessum ræðustól kl. 12 mínútur yfir miðnætti 3. júlí árið 2013, að hún kynnti breytingartillögur þessar með þeim hætti að um þær væri samkomulag, ekki um breidd framsóknarmanna í stjórninni heldur um að meiri hlutinn fengi fimm menn og minni hlutinn fjóra.

Það er löng hefð fyrir því að þingflokksformenn hafi stöðuumboð í þinginu til að gera samninga og nefndaformenn geti gefið yfirlýsingar í ræðustól sem haldi. Þá hefð á að virða. Þetta er ekki flókið (Forseti hringir.) eins og hæstv. forsætisráðherra segir. Þetta er spurning um að standa við orð sín.