143. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2014.

kosning níu manna og jafnmargra varamanna í stjórn Ríkisútvarpsins, fjölmiðils í almannaþágu, að viðhafðri hlutfallskosningu, skv. 9. gr. laga nr. 23/2013 um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu.

[16:24]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Þingnefndir eru níu manna, í sumum þeirra eru valdahlutföllin 6:3, í öðrum 4:5. Það er samkomulagsatriði og gert meðal annars vegna þess að viljum að þingnefndin endurspegli fleiri sjónarmið. Sama er hægt að gera varðandi stjórn Ríkisútvarpsins og var raunar að áliti margra hér gert samkomulag um.

Ég er ekkert háheilagur í framan og mér finnst slæmt að við séum vænd um að vera með ákveðinn svip í þessari umræðu. Mér er bara svolítið mikið niðri fyrir. Þetta birtist mér sem valdagræðgi. Þetta birtist mér sem einhvers konar þögul jarðýtupólitík. Það er að myndast eitthvert eignarhald meiri hluta á stjórn RÚV, pólitísks meiri hluta á Alþingi. Hvað ef það væru í raun og veru 66% atkvæða á bak við stjórnarflokkana? Mundi stjórn RÚV vera sjö á móti tveimur? Átta á móti einum? Það er mjög mikilvægt að fjölbreytt sjónarmið séu í stjórn Ríkisútvarpsins. Þetta er einhvers konar ég á það/ég má það-pólitík. Þetta er svona ég um mig frá mér til mín.