143. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2014.

fríverslunarsamningur Íslands og Kína.

73. mál
[17:01]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Forseti. Ísland hefur þegar gert marga fríverslunarsamninga, ýmist tvíhliða eða í gegnum aðildina að EFTA. Helsta álitamálið í tengslum við fríverslunarsamning við Kína, líkt og ýmsa aðra, hefur lotið að stöðu mannréttindamála og að þeim lýtur fyrirvari minn í þessu máli. Hér togast á sjónarmiðin um aukin viðskipti og tengsl við umheiminn, að þau geti bætt lífskjör og opni augu stjórnvalda jafnt sem almennings fyrir gildi mannréttinda, og hins vegar að ekki eigi að veita stjórnvöldum í ríkjum þar sem mannréttindabrot eiga sér stað þá viðurkenningu og lögmæti sem felst í alþjóðlegum samningum um viðskipti.

Í framhaldi af gerð þessa samnings hefur nú verið gengið frá samkomulagi um samstarf Íslands og Kína á sviði vinnumála og mannréttindamála, m.a. með aðkomu verkalýðshreyfingarinnar. Þá er rétt að halda því til haga að Amnesty International leggst ekki gegn umræddum samningi þrátt fyrir gagnrýni sína á ástand mannréttindamála í landinu. Með tilliti til þess og eftir vandlega yfirlegu í utanríkismálanefnd í málinu er það niðurstaða mín að styðja það. Ég segi já.