143. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2014.

fríverslunarsamningur Íslands og Kína.

73. mál
[17:10]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Alþingi er að stíga hér sögulegt skref. Þetta er mikilvægasti utanríkisviðskiptasamningur sem Íslendingar hafa gert frá því við gerðum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Þessi samningur mun opna gríðarleg tækifæri fyrir íslenskt atvinnulíf, ekki síst í sjávarútvegi þar sem 10–12% tollar falla niður. Ég hygg líka að menn verði undrandi þegar upp verður staðið hversu mörg tækifæri eru líka fólgin í þessum samningi fyrir hefðbundinn landbúnað. Þá eru ótaldar aðrar atvinnugreinar. Þess vegna styð ég þennan samning heils hugar og styð hæstv. ríkisstjórn og þakka henni fyrir að hafa lokið því góða verki sem fyrri ríkisstjórn hóf í þessum efnum.

Það er alveg rétt sem menn hafa sagt að hægt er að deila á þennan samning sökum mannréttindastöðunnar í Kína. Hvaðan eigum við að taka okkar leiðsögn? Ekki síst frá Amnesty International. Amnesty tók það skýrt fram að samtökin legðust ekki gegn samningnum en skoruðu á íslensk stjórnvöld að nota þá farvegi sem hann skapar til þess að knýja á um mannréttindaumbætur. Það er ekki síst vegna þess að þetta bætir möguleika okkar til þess sem ég tel að allir þingmenn ættu að greiða (Forseti hringir.) samningnum atkvæði sitt.