143. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2014.

fjárhagsaðstoð vegna gjaldþrotaskipta.

233. mál
[17:27]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Þetta frumvarp er til mikilla bóta fyrir það fólk sem er læst inni, hefur ekki efni á að borga 250 þús. kr. til að geta farið í gjaldþrot, gjaldþrot sem í dag og út þetta ár þýðir að það sé bara gjaldþrot í tvö ár og er ekki hægt að taka það upp og halda fólki í gíslingu eins og lengi hefur verið. Þetta er mikil bót fyrir það fólk. Það þarf að sækja um þetta. Það þarf að sækja um það hjá umboðsmanni skuldara. Þar sem fram hefur komið gagnrýni á það hvernig hann hefur sinnt málum hvað varðar skuldaleiðréttingar fólks eru sömu ákvæði í þessum lögum hvað það varðar. Ef fólk er óánægt með niðurstöðuna sem það fær frá umboðsmanni skuldara kveða þessi lög á um að það geti kært þá ákvörðun til ráðherra. Þá lendir það á borðinu hjá hæstv. ráðherra Eygló Harðardóttur að svara fyrir það. Ég hvet fólk til að gera (Forseti hringir.) það ef það er ekki ánægt.