143. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2014.

staðgöngumæðrun, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra.

[17:47]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir skýrsluna og fyrir að taka þetta stóra mál til umfjöllunar. Hæstv. ráðherra leitar eftir umræðu um staðgöngumæðrun sem er, eins og hann bendir á, sannarlega ekkert hversdagslegt viðfangsefni í stjórnmálum.

Í skýrslu sinni fór hæstv. ráðherra yfir þau fjölmörgu álitamál sem enn eru ekki nægilega rædd eða útkljáð. Vandséð er hvernig mögulegt er að tryggja það sem segir í þingsályktunartillögunni, með leyfi forseta, „í fyrsta lagi hag og réttindi barnsins, að tryggja í öðru lagi rétt, sjálfræði og velferð staðgöngumóðurinnar og fjölskyldu hennar, og að tryggja í þriðja lagi farsæla aðkomu hinna verðandi foreldra.“

Starfshópur var skipaður um málið í janúar 2009 og í skýrslu sem hann skilaði í júní 2010, segir í lokaorðum að helstu rökin fyrir að leyfa staðgöngumæðrun séu þau að hún geti verið farsæl lausn á vanda þeirra sem eiga við ófrjósemisvanda að stríða. Helstu rök gegn staðgöngumæðrun séu að hætta sé á að litið sé á staðgöngumóðurina sem hýsil utan um barn.

Að undangenginni faglegri og ítarlegri skoðun lagðist sá starfshópur gegn því að heimila staðgöngumæðrun að svo stöddu. Í svo stóru siðferðilegu álitamáli er mikilvægt að áætlaður sé góður tími til rannsókna og umræðu og það gleymist ekki samhengið við rétt kvenna til yfirráða yfir eigin líkama og ekki má gleyma heldur rétti barna. Málið er ekki bara siðferðilegt heldur vakna í tengslum við það einnig lagalegar og læknisfræðilegar spurningar. Meðganga er ekki áhættulaus. Tekur velgjörðarkonan áhættuna og ber allan kostnað ef illa fer eða verður gerður samningur um slíkt? Hver er þá staða mála orðin? Ekki er hægt að gera bindandi samninga fyrir fæðingu barns eða hvað?

Ég tel mikilvægt að svo flókið málefni sem snertir einnig marga fleti mannréttinda þróist í takt við breytingar hjá okkar helstu nágrannaþjóðum, en eins og fram hefur komið leyfir ekkert Norðurlandanna staðgöngumæðrun né viðurkennir hana með stuðningi opinberrar félags- og heilbrigðisþjónustu. Einnig þarf að hafa í huga að málið getur varðað skuldbindingar og afstöðu Íslands til núverandi og væntanlegra alþjóðareglna á sviði mannréttinda.

Þó að mörk hafi verið máð og viðmið breyst um getnað barns, móðerni og faðerni með tæknifrjóvgun og fjölbreyttari sambúðarformum gengur staðgöngumæðrun langtum lengra og er, eins og hæstv. ráðherra bendir á, ólík og umdeildari frá siðferðilegum viðmiðum. Langt er í land að staðgöngumæðrun sem almenn og sjálfsögð þjónusta sem studd er af hinu opinbera með lagaumgjörð geti talist sjálfsögð og eðlileg. Spurningunni t.d. um hvernig koma megi í veg fyrir markaðsvæðingu og misbeitingu er fjarri því að vera svarað með fullnægjandi hætti.

Í þingsályktunartillögunni sem hæstv. ráðherra vinnur nú eftir er gert ráð fyrir frumvarpi um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. En hver eru mörkin á milli velgjörðar og hagnaðar? Hvernig getum við verið viss um að meint velgjörð sé veitt af fúsum og frjálsum vilja? Hætta er á að þrá fólks eftir því að ala upp barn verði sett ofar réttindum og hag staðgöngumóðurinnar. Ég tel alls ekki tímabært að setja lög sem heimila staðgöngumæðrun.

Hæstv. ráðherra lýsir í skýrslu sinni nokkuð vel vandanum við að uppfylla þær skyldur sem þingið hefur lagt á hann með þingsályktunartillögunni. Ég tel reyndar að ómögulegt sé að smíða lagafrumvarp sem tekur tillit til alls þess sem þingsályktunin segir að gæta þurfi að. En ég óska hæstv. ráðherra góðs gengis í glímunni við þetta stóra og krefjandi verkefni.