143. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2014.

staðgöngumæðrun, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra.

[18:22]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum skýrslu hæstv. heilbrigðisráðherra, munnlega skýrslu sem hann flytur á Alþingi vegna undirbúnings lagafrumvarps um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni, eins og það heitir hér.

Ég vil fyrir það fyrsta fagna því þó að seint sé miðað við þingsályktunartillöguna og þann tíma sem liðinn er að skýrslan sé flutt og sú umræða eigi sér stað sem hefur verið kallað eftir á hinu háa Alþingi til að fá fram, enn einu sinni, ólík sjónarmið, virðingu fyrir sjónarmiðum hver annars, að sjónarmiðin komi fram, því að eins og hæstv. ráðherra segir er það ekki hversdagslegs eðlis hjá stjórnskipuninni eða Alþingi að fjalla um að setja lög um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

Það er rétt sem kemur fram í skýrslunni að Alþingi ályktaði um staðgöngumæðrun 18. janúar 2012, fyrir tveimur árum síðan, og sú þingsályktun er auðvitað í fullu gildi. Í þeirri þingsályktun, sem samþykkt var með miklum meiri hluta, kom fram vilji þingsins. Þar stóð að frumvarpið yrði lagt fram svo fljótt sem verða mætti. Það varð að vera samkomulag um að hafa það orðalag en ekki dagsetningu eins og sett var fram í tillögunni sjálfri þegar hún kom frá nefnd.

Þess vegna fagna ég því að skýrslan sé komin fram, að umræðan fari fram, að ólík sjónarmið komi fyrir hæstv. ráðherra til frekari vinnu þeirrar nefndar eða starfshóps sem hæstv. fyrrverandi velferðarráðherra Guðbjartur Hannesson skipaði haustið 2012, þriggja manna nefnd. Eins og hér hefur komið fram hefur verið bætt við sérfræðingi frá innanríkisráðuneytinu og vinnan hefur átt sér stað. Í þessari stuttu skýrslu ætla ég ekki að fara yfir þau atriði sem hæstv. ráðherra leggur fram sem hluti sem munu verða í frumvarpi.

Það er gott mál að þetta skuli vera rætt vegna þess að í millitíðinni hefur verið kosið til Alþingis og hefur orðið töluverð breyting á skipun þingmanna á Alþingi, það hafa orðið töluverðar mannabreytingar og maður veit svo sem ekki neitt hvernig staðan er í dag. Eins og við vissum þegar við ræddum þingsályktunina á sínum tíma haustið 2011, sem lauk með samþykktinni eins og áður sagði 18. janúar 2012, eru mörg siðferðileg álitamál og félagar innan flokka skiptust á að vera með og á móti sem er ekkert óeðlilegt, verður þetta aldrei flokkspólitískt mál, þarna eiga menn eingöngu við sína sannfæringu. Ég vísa í þær ræður sem ég flutti um málið þá, vinnu mína í þáverandi heilbrigðisnefnd, ég held ég muni það rétt, hún var ekki orðin að velferðarnefnd að mig minnir, sem fór fram þar og var sett fram í þessari þingsályktunartillögu og þeirri miklu greinargerð sem var lögð fram. Eins og kemur fram hér yrðum við fyrst Norðurlanda til þess ef Alþingi samþykkir lög um staðgöngumæðrun. Það er jafnframt svolítið vandamál vegna þess að okkar litla stjórnsýsla hefur oft notað reynslu annarra þjóða sem við berum okkur saman við, t.d. Norðurlandaþjóða, til að semja frumvarp og setja í lög það sem við viljum hafa þar og við höfum nýtt okkur reynslu annars staðar frá. Hér erum við því í raun og veru að ryðja brautina og þess vegna get ég ekki gagnrýnt það mjög að þetta skuli ekki ganga hraðar.

Ég lýk máli mínu með því að fagna þessari skýrslu, vísa í fyrri ræður mínar og hvet til þess að áfram verði unnið markvisst að frumvarpi sem kæmi hingað til Alþingis og Alþingi gæti þá lýst vilja sínum.