143. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2014.

staðgöngumæðrun, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra.

[18:26]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir þá aðferð sem hann notar til að ræða þetta mál. Það eru orð að sönnu að hér er ekki einfalt verkefni á ferðinni, álitamálin alveg gríðarlega mörg og umræðan flókin, alveg sama hvaða skoðun menn kunna að hafa á efninu. Það er alveg á hreinu.

Það er mjög mikilvægt í þessu máli að við berum virðingu fyrir skoðunum hvers og eins og reynum eftir fremsta megni að hlusta af athygli á þær röksemdir sem koma fram, burt séð frá því úr hvaða átt þær kunna að koma. Ég fyrir mitt leyti hef ekki myndað mér neina endanlega skoðun á því hvernig ég lít á málið en er engu að síður mjög hugsi yfir því hvort þetta sé hreinlega tímabært, hvort sem við komumst að þeirri niðurstöðu eða ekki á einhverjum tímapunkti að við eigum að fara af stað og semja lög.

Það ber fyrst að nefna að það er ákaflega mikilvægt í því samhengi að ef og þegar við förum þessa leið þá má alls ekki ganga á rétt staðgöngumóðurinnar til umráða yfir eigin líkama. Það er mikilvægt að hafa í huga að á meðgöngunni eins og á öðrum tímum hefur hún allan umráðarétt yfir líkama sínum. Það verður líka að muna að í því sambandi er í rauninni erfitt að gera einhvers konar samkomulag um hvernig staðgöngumóðirin á haga lífi sínu meðan á meðgöngunni stendur vegna þess að það sé í þágu foreldra verðandi barns. Þetta er ekki einfalt.

Það er líka hægt að velta því upp hver sé réttur þeirra einstaklinga sem „lána“ erfðaefni sitt til staðgöngumóðurinnar að ganga með í þeirri von að niðurstaðan verði barn sem tveir einstaklingar eignast. Þá erum við að nálgast álitaefni úr hinni áttinni vegna þess að réttarstaða beggja aðila sem koma að þessu getur verið býsna flókin. Við þurfum að treysta okkur til að svara þessum spurningum áður en við göngum þennan veg. Við verðum í allri lagasetningu að tryggja eða alla vega reyna að tryggja að félagslegur þrýstingur verði ekki til þess að kona ákveði að ganga með barn annarra aðila og við verðum að hafa í huga að það er kannski ekki mjög auðvelt að setja í lög hvernig við getum hindrað, hvað má segja, hugtak eins og „félagslegan þrýsting“. Það er ekkert einfalt mál.

Við verðum líka að hugleiða hvernig við getum tryggt að um velgjörð sé að ræða. Ef við getum ekki með nokkru móti tryggt það má spyrja hvor við séum tilbúin til að stíga skrefið eða hvort okkur finnist á hinn bóginn að málefnið sé svo mikilvægt að við verðum að reyna. Það getur líka verið.

Við skulum hafa í huga að jafnvel þar sem staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni hefur verið leyfð hefur því miður, alla vega í sumum tilfellum, orðið til einhvers konar verð. Hvaða afstöðu tökum við til þess og hvernig ætlum við að taka afstöðu til þess? Hvernig getum við gert það?

Menn hafa velt mikið fyrir sér að undanförnu, og eru raunar farnar að birtast um það allnokkrar fræðigreinar, tengslum heilsu barns og hegðunar, líðanar og lifnaðarhátta móður á meðgöngunni. Hvað vitum við til að mynda um líðan staðgöngumóður sem veit að hún mun ekki eignast barnið sem hún fæðir heldur einhverjir aðrir? Vitum við eitthvað möguleg áhrif þeirrar líðanar og hugsunar á ófætt barnið? Hér er ég ekki að tala einhverja bábilju heldur eru menn þegar farnir að birta fræðigreinar um þetta og mikilvægt að menn hafi það í huga.

Ég vil að lokum hvetja ráðherra eindregið til að halda áfram að vinna með málið. Ég hvet hann jafnframt til að gefa sér ekkert fyrir fram í þessum efnum, reyna með öllum tiltækum ráðum að dýpka umræðuna eins og hægt er og taka sér allan þann tíma sem þarf.