143. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2014.

staðgöngumæðrun, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra.

[18:50]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Mér dettur ekki í hug að halda því fram að þetta sé einfalt mál. Ég sat í velferðarnefnd á síðasta kjörtímabili þegar þingsályktunartillaga um málið var til umræðu og var mjög upplýsandi og fróðlegt að taka þátt í því öllu saman.

Það var t.d. mjög fróðlegt að heyra hve margar leiðir fólk hefur í raun til að efna til staðgöngumæðrunar eins og staðan er núna. Það var líka mjög fróðlegt og upplýsandi að hitta tvær konur sem höfðu ákveðið og vildu ganga í gegnum ferli staðgöngumæðrunar eftir vandlega íhugun og kölluðu eftir því að hægt væri að gera það á Íslandi á löglegan hátt þannig að allt væri uppi á borðum. Mér fannst mjög merkilegt að heyra þau sjónarmið.

Ég hef líka fullan skilning á hinum sjónarmiðunum, varfærnissjónarmiðunum um að við megum ekki skapa hér kerfi þar sem konur eru neyddar til að leigja líkama sinn í þágu annarra kvenna eða para. Mér finnst mjög mikilvægt í svona flóknu máli að menn átti sig á hvar samhljómurinn er. Ég fann það eftir umfjöllun í velferðarnefnd á síðasta kjörtímabili og eins við það að hlýða á umræðuna og lesa og hlusta á skýrslu hæstv. ráðherra sem hann flutti áðan, að það er þó mjög ríkur samhljómur um að leyfa ekki frjálsa staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni. Það er enginn að tala um það. Mér heyrist allir vera að tala um að móðurrétturinn verði aldrei tekinn frá móðurinni þannig að það eigi alltaf að virða rétt þeirrar konu sem ákveður að ganga með barn fyrir annað fólk til að skipta um skoðun og vera móðirin þegar barnið er fætt og líka réttinn til að vera móðirin á meðgöngutímanum.

Mér finnst líka vera alger samhljómur um að það á að vera refsivert að greiða fyrir staðgöngumæðrun þannig að við ætlum að reyna að leita leiða ef við leyfum staðgöngumæðrun til að tryggja algjörlega að kona verði ekki sett í þá stöðu að ganga með barn annarra í hagnaðarskyni eða út úr neyð. Mér heyrist líka vera samhljómur um að það sé hægt núna. Mér heyrist flestir átta sig á því. Þá er þetta bara spurning um hver ágreiningurinn er, hvort það sé skynsamlegt að viðurkenna það með því að opna fyrir löggjöf um málið. Mér heyrist undirliggjandi rökræður vera: Er mögulegt að gera svona í velgjörðarskyni? Setjum við konur í erfiða stöðu bara með því að búa til löggjöfina?

Ég hallast að því að það sé a.m.k. einnar messu virði að reyna að smíða löggjöf sem gerir velgjörðarstaðgöngumæðrun mögulega og að tvær fullorðnar manneskjur, og raunar fleiri, geti komist að þeirri upplýstu niðurstöðu. Ég sagði áðan að þetta væri hægt núna, fólk getur farið til útlanda í þessum erindagjörðum. Það var rakið ágætlega í meðferð velferðarnefndar. Svo er gripið til orðalagsins „hefðbundin sæðing í heimahúsi“ í skýrslu hæstv. ráðherra. Það er tiltölulega einföld aðgerð, hefðbundin geri ég ráð fyrir. (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Sæðið.) Já. Ég geri ráð fyrir að menn geti stuðst við ýmsar hefðbundnar aðferðir í þessum efnum í heimahúsum og í raun og veru geta tvær manneskjur einfaldlega tekið þá ákvörðun að efna til slíkra athafna í heimahúsi eða annars staðar og gert einhvers konar samning sín á milli um að barnið verði síðan ekki barn móðurinnar heldur annarrar konu eða pars.

En hvað vantar inn í þetta ferli allt saman? Þetta er hægt, það er hægt að gera þetta. Það sem vantar þarna er að tekin sé afstaða til réttinda barnsins. Það sem vantar þarna er að tekin sé afstaða til þess hvað þessi samningur þýðir. Er hann æðri móðurréttinum? Hvaða stöðu hefur þessi samningur? Þetta er eflaust mjög erfitt ferli, rosalega miklar tilfinningar. Ég mundi segja að það vantaði í svona ferli teymi fagmanna til að halda utan um það, halda utan um að samþykkið sé upplýst og tryggja að allir aðilar séu á sömu blaðsíðunni. Er réttur móðurinnar tryggður? Getur hún skipt um skoðun? Hvað gerist ef upp koma veikindi á tímabilinu? Það vantar allan ramma.

Ég upplifi umræðuna þannig að uppi sé krafa um að búinn sé til rammi utan um málið. Það er á þeim forsendum sem ég er jákvæður gagnvart þessu máli. En það er vandasamt verk og sú umræða kemur oft upp um hversu langt við eigum að fara í frelsisátt þegar kemur að ákvörðunarrétti konu yfir eigin líkama, eins og það er stundum orðað. Rökræðan kemur oft upp um að við eigum ekki að fara of langt vegna þess að of mikið frelsi í þessum efnum geti opnað fyrir það að konur séu misnotaðar. Mér finnst alveg full ástæða til að hafa skilning á því sjónarmiði og fara varfærnislega. En það eru líka mjög veigamikil rök fyrir ákvörðunarrétti yfir eigin líkama og það eru einhver mörk fyrir því hversu langt er hægt að fara með þessi misnotkunarsjónarmið ef þau hefta frelsi okkar. Ég held að það séu ríkar röksemdir fyrir því að fara mjög varlega. Ég minntist á tvær konur áðan sem voru búnar að komast að þeirri niðurstöðu eftir vandlega yfirlegu að þær vildu gera þetta. Önnur vildi hjálpa hinni. Þá verðum við að íhuga hvaða röksemdir höfum við til að neita þeim að gera það, ef við viljum gera það. Þetta snýst líka einfaldlega um frelsi fullorðinna einstaklinga til að hjálpa hver öðrum.

Ég hef farið vítt og breitt yfir málið. Mér finnst mikilvægt átta sig á að þetta snýst auðvitað ekki um að ef við ákveðum að setja ekki löggjöf um staðgöngumæðrun þá verði engin staðgöngumæðrun. Stundum finnst mér við tala þannig um lög. Lög ákveða ekki alveg veruleikann. Staðgöngumæðrun verður samt sem áður áfram til. Það er spurningin um hvort við viljum hafa ramma utan um hana eða ekki.

Mér finnst yfirferðin hjá hæstv. ráðherra mjög vönduð. Mér finnst spurningarnar þar vera vel settar fram og öll þessi álitamál og það róar mig í þessum efnum vegna þess að mér finnst þetta engan veginn einfalt mál. Ég hvet til þess að áfram sé farið varlega og ég vona að niðurstaðan verði réttlát, sanngjörn og mögulega framsækin. Ég býst við að hún verði framsækin vegna þess að við erum eina þjóðin á Norðurlöndum sem ætlar hugsanlega að gera þetta. Ég vona að það verði niðurstaðan úr þessari vinnu og svo ræðum við þetta sérstaklega þegar kemur að því setja löggjöf um málið. Það getur vel verið að við sjáum þá að það gangi ekki upp, en við skulum reyna.