143. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2014.

staðgöngumæðrun, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra.

[19:00]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir í upphafi máls míns þakka hæstv. ráðherra fyrir að leggja fram þessa skýrslu, þó svo — og það er kannski ekki honum um að kenna — að hún hefði mátt koma fyrr. Það eru rétt nýliðin tvö ár síðan umrædd þingsályktun sem við erum að ræða framhaldið á var samþykkt á Alþingi. Til að rifja það upp þá sögðu 33 þingmenn já og 13 greiddu atkvæði gegn þannig að hún var samþykkt með yfirgnæfandi meiri hluta þáverandi þings. Það er alveg rétt sem hér hefur komið fram að í millitíðinni hefur verið kosið og er ekkert óeðlilegt við það að nýtt þing þurfi ráðrúm til að ræða þetta mál.

Hér hefur mikið verið rætt um að í þessu séu mörg álitamál, þetta þurfi að ræða, við þurfum að gefa okkur tíma. Það er allt rétt. Þá langar mig svolítið til að rifja upp hversu lengi þetta mál hefur verið til umræðu hér, bara hér á hinu háa Alþingi, og síðan hvernig umræðan hefur verið úti í þjóðfélaginu.

Það var fyrir rúmum fimm árum, í september 2008 sem ég lagði fram fyrstu fyrirspurnina til þáverandi heilbrigðisráðherra, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, um staðgöngumæðrun. Ég man dagsetninguna mjög vel vegna þess að ég átti tvær vikur í að eignast yngri son minn og hann er að verða 6 ára núna í september. Ég hef því haft afskipti af þessu máli á þingi núna á sjötta ár og þá var það ekki í fyrsta sinn sem málið var rætt á þingi heldur hafði það komið til umræðu áður.

Á þessum sex árum við hverja fyrirspurn, við hverja skýrslu, í hvert sinn sem þingsályktunartillagan var lögð fram og rædd gaus að jafnaði upp í samfélaginu mikil umræða. Umræðan varð um tíma miklu almennari en mig óraði fyrir að hún gæti nokkurn tíma orðið vegna þess að þetta er mál sem maður er kannski ekki að hugsa um nema þegar það er akkúrat í umræðunni, nema þetta sé mál sem snertir mann persónulega.

Ég verð að hrósa ræðu hv. þm. Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur sem fór afar vel yfir þau sjónarmið sem eru mikilvæg í þessu máli. Ég ætla því að nota tækifærið og vísa í ræðu hennar og aðrar sem ég hef flutt um þetta mál áður í staðinn fyrir að endurtaka það. Mig langar að taka þetta dálítið út frá því sjónarmiði að það þurfi meiri umræðu, það þurfi fleiri sérfræðinga, það þurfi málþing, það þurfi samtal. Eins og ég segi er það allt rétt. En hvenær er komið nóg?

Hér á árum áður, daginn fyrir samþykkt þingsályktunartillögunnar við síðari umr., reiknaðist mér svo til, þá hafði ég tekið það saman — ég hef ekki tekið saman tölurnar fyrir þau tvö ár sem hafa liðið síðan þá — að á 18 mánuðum þar á undan höfðu verið haldin 15 málþing um staðgöngumæðrun og ég tók þátt í umræðum í velflestum þeirra. Allir fjölmiðlar landsins höfðu fjallað ítarlega um staðgöngumæðrun. Kastljós, Ísland í dag, síðdegisútvarp Ríkisútvarpsins, Reykjavík síðdegis, Ísland í býtið, Návígi, meira að segja Simmi og Jói, Fréttablaðið, Fréttatíminn, Nýtt líf og Morgunblaðið fyrir utan hefðbundnar fréttir á RÚV og Stöð 2.

Talað var um að almenningur þyrfti að vera upplýstur og gerðar hafa verið skoðanakannanir meðal almennings. Áður en þingsályktunartillagan var samþykkt voru í kringum 80% fylgjandi staðgöngumæðrun. Í síðustu könnun sem ég hafði séð þá, frá maí 2012, hafði þessi tala farið upp í 87,3%. Svo margir voru hlynntir staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Ég tek fram að við erum alltaf að tala um í velgjörðarskyni. Umræðan hefur því verið ítarleg, umræðan hefur verið góð. Ekki eru allir sammála þannig að öll sjónarmið hafa komist á framfæri.

Ég minni á að í þingsályktunartillögunni sem var samþykkt var velferðarráðherra falið að skipa starfshóp sem ætti að undirbúa frumvarp til laga sem heimilar staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Ég lít svo á að skýrsla hæstv. ráðherra sé liður í því, eins og hann hefur kynnt það sjálfur. Ég vona svo sannarlega að við fáum frumvarp um þetta á hinu háa Alþingi svo fljótt sem verða má, eins og segir í tillögunni.

Ef við horfum sex ár aftur í tímann, hvað varð til þess að ég fór að skipta mér af þessu máli? Það var vegna þess að til mín leitaði fólk sem þráir ekkert annað meira í lífinu en að eignast barn. Þetta var ekki einn, þetta voru ekki tveir, þetta var nokkur hópur fólks.

Hvað hefur gerst á þessum sex árum? Þau eins og við öll hafa orðið sex árum eldri. Hv. þm. Jóhanna María Sigmundsdóttir fór vel yfir þau skilyrði sem þarf að uppfylla í ættleiðingarferlinu. Þar eru sett ákveðin aldurstakmörk og ég leyfi mér að fullyrða að nánast allir þeir sem eru komnir að þessu úrræði hafa farið í gegnum ferlið; ættleiðingar, tæknifrjóvgun og allt þetta. Allt tekur þetta tíma. Við getum verið að tala um áratug eða meira í lífi þessa fólks í baráttunni við það að geta eignast barn. Það er auðvitað ekki réttur allra að eignast börn eins og hér hefur komið fram. En gleymum því ekki heldur að við göngum ansi langt nú þegar og við leggjum okkur öll fram í þeirri viðleitni að aðstoða fólk sem getur ekki eignast börn með eðlilegum hætti. Við leyfum tæknifrjóvganir, við leyfum glasafrjóvganir. Við tölum um siðferðileg álitamál tengd staðgöngumæðrun. Þau eru öll fyrir hendi, leyfi ég mér að fullyrða, nema eitt; að móðirin lætur barnið af hendi. Varðandi uppruna barns er miklu auðveldara fyrir barn að leita uppruna síns þegar um staðgöngumóður er að ræða vegna þess að í mörgum tilfellum er um að ræða kynfrumur frá væntanlegum foreldrum.

Við leyfum gjafaegg og gjafasæði. Það er hægt að gefa egg og gefa sæði án þess að veita leyfi fyrir því að heimilt sé að gefa upp hver gefur viðkomandi egg og sæði. Ég segi fyrir mig, mér þykir það meiri gjöf. Ég nefndi hér son minn sem fæddist fyrir tæpum sex árum. Hann er nánast alveg eins og ég. Hann þykir svo líkur mér, blessaður drengurinn, að ég þarf ekki að vera nálægt honum til að fólk átti sig á því að ég er móðir hans. Hann var einu sinni egg sem ég hefði getað gefið. Hann er alveg eins og ég. Það er mjög mikil gjöf ef maður hugsar þetta í þessu samhengi. Ég er ekki að gera lítið úr þeirri gjöf sem það er fyrir konu að ganga með barn fyrir aðra konu, en setjum ekki siðferðilegu álitamálin í þessu máli ofar öllu öðru sem við höfum þegar leyft. Þetta er nákvæmlega sami hluturinn. Þetta er úrræði fyrir foreldra sem geta ekki eignast barn eftir öðrum leiðum og þetta gerir fólk.

Hér var nefnt áðan að það var ekki fyrr en í sumar sem fyrsta samkynhneigða parið á Íslandi, karlar, fékk að ættleiða barn. (Forseti hringir.) Þeir hafa upplýst um það sjálfir. Þeir leituðu áður staðgöngumóðurleiðarinnar í útlöndum (Forseti hringir.) en féllu frá því vegna þess að þeir fengu þá dásamlegu gjöf sem þessi litla stúlka er sem þeir gátu ættleitt. Þetta er hægt. Fólk gerir þetta, (Forseti hringir.) það gengur ansi langt. Hjálpum því, semjum þetta að íslenskum veruleika.