143. löggjafarþing — 60. fundur,  10. feb. 2014.

hönnunarstefna stjórnvalda.

[15:19]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og fyrir að vekja athygli á hönnunarstefnunni sem við vorum að kynna og samþykkja fyrir um það bil tíu dögum. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður sagði, þetta er eitt af þessum verkefnum sem ekki á að þurfa að vera pólitískt ósætti um enda var verkið hafið í tíð fyrrverandi ríkisstjórnar. Við tókum við því, því var ekki lokið, og kláruðum það þannig að það er mjög gott að vita að á bak við þessa hönnunarstefnu er væntanlega þverpólitísk sátt.

Þessi stefna er sett fram. Hún er ekki flókin. Það eru þrjár stoðir sem hún byggir á, það er vitundarvakning, það er stuðningskerfið og það hvernig auka má veg hönnunar í menntakerfinu. Hún er þannig að við tilgreinum ákveðin verkefni og ábyrgðaraðila og hún er sett á laggirnar til fjögurra ára. Hún er ekki kostnaðarmetin ef svo mætti segja enda þurfa sum þessara verkefna ekki endilega að kosta mikla peninga. Hvað varðar vitundarvakningu til dæmis má nefna það að ganga á undan með góðu fordæmi, þ.e. að þegar verið er að kaupa húsgögn eða gera breytingar, hvort sem er í sendiráðum eða opinberum stofnunum, sé haft í huga að velja íslenskt og setja það á hærri stall.

Hv. þingmaður nefndi hönnunarsjóð. Við þetta tækifæri var einnig tekin sú ákvörðun að færa fyrirsvar hönnunarsjóðs frá menntamálaráðuneyti yfir í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið á mitt verkefnasvið. Við vinnum út frá þeim fjárveitingum sem við höfum samkvæmt fjárlögum sem eru 25 millj. kr. á þessu ári.