143. löggjafarþing — 60. fundur,  10. feb. 2014.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma.

[15:40]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með hæstv. utanríkisráðherra, mér þykir þessi viðleitni hv. þingmanna til að þyrla upp einhverjum þeim ósmekklegustu aðdróttunum sem ég hef lengi orðið vitni að — mér finnst þetta einkar ósmekklegt. Hæstv. innanríkisráðherra hefur ítrekað verið hér til svara um þetta ákveðna mál. Ég hlustaði síðast í morgun á hæstv. innanríkisráðherra í löngu og ítarlegu útvarpsviðtali.

Það að breytingar verði á viðveru í óundirbúnum fyrirspurnum gerist oft og iðulega og hæstv. fyrrverandi ráðherra veit það manna best. Ég get upplýst það að hæstv. innanríkisráðherra er nú á leiðinni til Ísafjarðar til fundar sem var löngu ákveðinn og ég veit ekki af hverju hún var sett á fyrirspurnatíma í dag vegna þess að ég veit að þessi fundur á Ísafirði var löngu ákveðinn.

Nú skulum við hafa það (Forseti hringir.) hugfast að fara í boltann en ekki manninn.