143. löggjafarþing — 60. fundur,  10. feb. 2014.

samningur um þátttöku Króatíu á Evrópska efnahagssvæðinu.

288. mál
[15:51]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir framsögu með þessu máli. Það er tvennt sem ég mundi vilja nefna. Ég vil að sjálfsögðu segja það að við hljótum almennt að fagna því að Króatía gerist aðili að Evrópska efnahagssvæðinu. Við höfum átt ágætt samstarf við Króatíu og rétt að minna á að Ísland var fyrsta ríkið sem viðurkenndi sjálfstæði Króatíu á sínum tíma og samskipti ríkjanna eru ágæt, þannig að við fögnum því. En mig langar til að nefna tvennt við hæstv. ráðherra.

Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að heimild sé til að fresta aðgengi Króata að íslenskum vinnumarkaði. Hið sama var gert þegar Búlgaría og Rúmenía gerðust aðilar að Evrópusambandinu og þar með hinu Evrópska efnahagssvæði. Mig langar til að inna hæstv. ráðherra eftir því hvort honum sé kunnugt um að það hafi í raun verið eitthvert vandamál í tengslum við Búlgaríu og Rúmeníu. Og það tengist þá vangaveltum um hvort í raun sé ástæða til að vera með þessa frestunaraðgerð. Eitt er það að heimildin sé til staðar og annað kannski hvort hún er síðan nýtt. Ég vil inna hæstv. ráðherra eftir afstöðu hans til þess.

Í öðru lagi vil ég ræða aðeins og nota tækifærið til að spyrja hæstv. ráðherra út í EES-samninginn almennt. Hér hafa oft komið til umræðu, kannski allt of sjaldan þó og allt of grunnt, þau álitamál sem við stöndum frammi fyrir varðandi EES-samninginn og varða stjórnskipan okkar. Ég vil heyra frá hæstv. ráðherra hvort hann hafi einhver áform uppi um að láta skoða þau mál heildstætt og sérstaklega hvernig EES-samningurinn muni þróast og hvernig tekið verður á þeim stjórnskipulegu álitamálum sem við erum að fá í fangið hér hvert á fætur öðru um þessar mundir.